Mikil mengun og slysahætta á áramótunum

Mynd af frétt Mikil mengun og slysahætta á áramótunum
27.12.2018

Nú þegar áramótin nálgast verður okkur tíðrætt um áhættuna sem skapast um áramót vegna notkunar á flugeldum. Bæði er um að ræða hættu á alvarlegum slysum en ekki síður af mikilli mengun.  Umræða um þessa áhættu er síður en svo bundin við Ísland og eru flugeldar bannaðir víða. 

Mörg okkar eru viðkvæm fyrir breytingum á loftgæðum og finna fyrir einkennum t.d. frá lungum. Það á einkum við þá sem þjást af langvinnum lungnasjúkdómum eins og lungnaþembu eða astma. Þá eru margir með skerta sjón, heyrn eða hreyfigetu og eiga því hugsanlega erfiðara með að forðast slys þegar eldur er borinn að flugeldum. Einnig er meðhöndlun flugelda undir áhrifum vímugjafa varhugaverð vegna skertrar athygli þar sem slysahætta eykst.  

Langt yfir heilsuverndarmörkum

Mengunin um áramót er mikil og margföld á við svifryksmengun aðra daga. Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands er svifryksmengun í Reykjavík um áramótin um 500 mikrógrömm á rúmmetra þegar  við skjótum upp flugeldum, og alla jafna yfir 600 við brennur landsins. Allt yfir 50 míkrógrömm á rúmmetra er yfir heilsuverndarmörkum. Í svifryki geta einnig verið þungmálmar líkt og blý, kopar, sink og króm en þungmálmar í miklu magni  eru ekki heppilegir heilsu manna.

Fjölmargir lungnasjúklingar leita á bráðamóttökur og á heilsugæsluna um og eftir hver áramót vegna einkenna svifryksmengunar. Talið er að 5-10% landsmanna séu með lungnasjúkdóm sem er viðkvæmur fyrir svifryksmengun.  Mengunin um áramót er það mikil að frískt fólk getur fundið fyrir áhrifum á öndunarfærin. Hér er því um að ræða mikla umhverfisvá sem taka ber á. Þetta má líta á sem heilsuvernd og því þurfum við að taka á þessu máli án tafar.

Á vef Alþjóða heilbrigðismálastofnuninnar kemur fram að stofnunin telur að loftmengun utandyra leiði 3,8 milljónir manna í heiminum til dauða árlega. Því smærri sem agnirnar eru þeim mun lengra niður í lungun fari þær og geta verið skaðlegri. Því eru lungun fyrst útsett þegar loftmengun eykst.  Einnig er langvarandi mengun talin geta leitt til hjarta- og æðasjúkdóma og hafa vísindamenn áhyggjur af minni fæðingarþyngd barna. 

Samfara almennri flugeldanotkun fylgir mikið rusl og mengun, t.d. er hávaðamengunin mikil sem getur  haft áhrif á heyrn. Í reglugerð um skotelda, nr. 414/2017, er kveðið á um takmörkun á notkun þeirra. Þar eru skoteldar flokkaðir niður í fjóra flokka sem segir til um leyfi og notkunarreglur. Nauðsynlegt er að kynna sér þessar reglur vel og er það mikilvægt heilsu okkar vegna að takmarka enn fremur notkun flugelda þegar til lengri tíma er litið.

Reynum að koma í veg fyrir slys

Flugeldaslys eru algeng. Það hafa orðið dauðaslys á Íslandi sem og í öðrum löndum. Bruni og augnslys með varanlegum áverkum koma fyrir. Það er mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir slys af öllum toga. Best er að nota ekki flugelda en ef við notum þá ber að:

  • hugsa vel um börnin okkar. Slys verða frekar hjá ungu fólki og börnum, sérstaklega drengjum,
  • huga vel að þeim stað sem skotið er af,
  • notum hlífðargleraugu,
  • fylgjum leiðbeiningum,
  • áfengi og flugeldar eiga ekki saman,
  • verndum gæludýrin okkar, 
  • hugum að viðkvæmum einstaklingum,

Fólk sem er viðkvæmt í lungum ber að halda sig innandyra á meðan mesta mengunin er.

Notkun flugelda verði betur stýrt

Það er öllum ljóst að notkun flugelda er í óhófi á Íslandi og það hefur neikvæð áhrif á heilsu fólks. Nýlegt bréf til Læknablaðsins gefur góða mynd af vandanum. Þar skrifa þau Gunnar Guðmundsson lungnalæknir‚ Hrund Ólöf Andradóttir prófessor í umhverfisverkfræði og Þröstur Þorsteinsson prófessor í umhverfis- og auðlindafræði góða grein um áhættuna af svifryksmenguninni og leggja til þá góðu hugmynd að stýra betur notkun flugelda t.d. með sýningum á vegum sveitarfélaga í stað núverandi fyrirkomulags. Þar sem notkun flugelda er enn leyfileg þurfum við að fara eins varlega með þá og kostur er. Göngum því varlega um gleðinnar dyr, forðumst slysin og drögum úr mengun okkur öllum til hagsbóta til skamms og langs tíma.

Við heilsuvanda eða ef áhyggjur vakna er hægt að hringja í símann 1700, þar sem svarað er allan sólarhringinn af hjúkrunarfræðingum sem geta aðstoðað eða vísað á réttan stað. Þín heilsugæslustöð aðstoðar ef á þarf að halda en ef þín stöð er lokuð er hægt að leita á vaktina. Á höfuðborgarsvæðinu er það Læknavaktin, Austurveri. Við tökum á móti ykkur eða aðstoðum ef á þarf að halda og vísum áfram á sjúkrahús ef þörf er á.

Greinin sem birtist fyrst í Morgunblaðinu er skrifuð af Óskari Reykdalssyni framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis