Pistill forstjóra - desember 2018

Mynd af frétt Pistill forstjóra - desember 2018
19.12.2018
Frá árinu 2015 hefur verið lög aukin áhersla á teymisvinnu og að nýttar séu aðferðir straumlínustjórnunar eða lean, en með lean aðferðafræðinni gefst starfsfólki einstakt tækifæri til að móta störf sín og starfsumhverfi.

Í síðustu viku var fyrsta 3P vinnustofan (Production, Preparation, Process) haldin innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Tilefnið var undirbúningur hönnunar nýrrar stöðvar fyrir Heilsugæsluna Mosfells-umdæmi sem tekin verður í gagnið um mitt ár 2020. Auk starfsmanna Heilsugæslunnar Mosfellsumdæmi tóku nokkrir gestir einnig þátt í vinnustofunni, en þeir komu frá Heilsugæslunni Hlíðum, Heilsugæslunni Hvammi, Landspítala og framkvæmdastjórn/skrifstofu HH. Loks sat arkitekt nýja húsnæðisins alla vinnustofuna og tók virkan þátt. Það er mikilvægt að nýta það einstaka tækifæri sem nýtt húsnæði gefur og ekki síður mikilvægt að ný stöð verði hönnuð með þátttöku þess fólks sem þar kemur til með að starfa í framtíðinni. Horfa verður til þess að ný heilsugæslustöð gefi færi á að innleiða breytingar, innleiða nýja þjónustu og að nýtt húsnæði styðji bæði við teymisvinnu og aðferðir lean.

Það var einstakt að sjá þá miklu samvinnu, jákvæðni og ástríðu sem einkenndi alla vinnustofuna og þær fjölmörgu hugmyndir og úrlausnir sem fram komu þessa tæpu viku sem vinnustofan stóð.

Nú fer í hönd tími lokahönnunar nýrrar stöðvar fyrir Heilsugæsluna Mosfellsumdæmi. Það verður nú hlutverk arkitekts hússins að taka þær hugmyndir sem starfsmenn stöðvarinnar hafa mótað og færa þær inn í lokahönnun húsnæðisins.

Sú venja hefur skapast hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að heiðra það starfsfólk sem starfað hefur hjá Heilsugæslunni í 25 ár. Er það kannski til marks um þá miklu hollustu sem okkar starfsfólk hefur sýnt Heilsugæslunni. En tímar breytast og í anda nútímans að veita starfsfólki fyrr viðurkenningu fyrir hollustu sína og tryggð. Því var ákveðið í ár að heiðra alla þá sem náð hafa 20 ára starfsaldri. Í liðinni viku voru því 45 starfsmenn heiðraðir sem starfað hafa hjá HH í 20 til 25 ár. Öllum þeim sem tóku við viðurkenningu eru færðar innilegar þakkir fyrir hollustu og tryggð við íbúa höfuðborgarsvæðisins og ómetanlega þjónustu.  

Þórunn Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar lét af störfum hjá HH um síðustu mánaðarmót. Þórunn hóf störf hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir um 30 árum og hefur gengt starfi framkvæmdastjóra hjúkrunar frá árinu 1999. Þórunn á miklar þakkir skildar fyrir aðkomu sína að uppbyggingu hjúkrunar og forvarna innan HH. Við óskum Þórunni gæfu og góðs gengis á nýjum vettvangi.

Við starfi Þórunnar tók Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, sem gegndi áður starfi sviðsstjóra heilsuverndar skólabarna á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Við bjóðum Ragnheiði Ósk velkomna til nýrra starfa hjá HH.

Þetta er síðasti pistill ársins og síðasti pistill minn sem forstjóri HH. Ég vil þakka ykkur öllum samstarfið á liðnum árum og ég óska ykkur allra heilla í lífi og starfi á komandi árum. Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins óska ég velfarnaðar. 

Gleðilega jólahátíð.


Svanhvít Jakobsdóttir

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun