Nýtt endurhæfingarteymi Heimahjúkrunar tekur til starfa

Mynd af frétt Nýtt endurhæfingarteymi Heimahjúkrunar tekur til starfa
18.09.2018

Nýtt þverfaglegt endurhæfingarteymi hefur tekið til starfa hjá Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Með þessu nýja úrræði er stefnt að því að auka þjónustu við fólk í heimahúsum og gera því kleift að búa lengur heima.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið en er nú sett af stað eftir að fjárveiting fékkst til þess frá heilbrigðisráðuneytinu. Fyrsta árið er um tilraunaverkefni að ræða en að þeim tíma liðnum verður staðan endurmetin með tilliti til hugsanlegra breytinga ef þörf er á.

Nýja teymið býður öldruðum og sjúkum í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi stuðning til að ná aukinni færni með markvissri tímabundinni þjálfun og aðstoð. Stuðningur teymisins er fyrst og fremst hugsaður fyrir einstaklinga sem í dag þurfa takmarkaða aðstoð en sem gera má ráð fyrir að muni hafa aukna þjónustuþörf á næstu árum. Með því að grípa fyrr inn í með leiðbeiningar og aðstoð fagfólks er talið að auka megi færni og draga úr þörf þessara aðila fyrir þjónustu á næstu árum um leið og lagður er grunnur að auknum lífsgæðum þeirra. Þegar frá líður mun þetta gera Heimahjúkrun kleift að sinna betur þeim skjólstæðingum sem hafa meiri og þyngri umönnunarþörf. 

Markviss þjálfun í 4-12 vikur

Sigrún Kristín Barkardóttir svæðisstjóri heimahjúkrunar segir að hver einstaklingur fái markvissa þjálfun í 4 til 12 vikur eftir því hver þörfin er. Geta hvers og eins er metin í upphafi og er miðað við að viðkomandi skjólstæðingur setji sér tímasett markmið í samráði við teymið um þann árangur sem stefnt verður að.  „Eftir þennan tíma væntum við þess að skjólstæðingurinn þurfi minni utanaðkomandi aðstoð en áður. Þetta er viðbótarúrræði og mun ekki skerða á nokkurn hátt aðra aðstoð sem viðkomandi kann að eiga rétt á, heldur viljum við stuðla að því að fólk geti nýtt betur eigin styrkleika og félagslega færni,“ segir Sigrún Kristín.

Þverfagleg þjálfun

Í endurhæfingarteymi Heimahjúkrunar Heilsugæslunnar eru fimm fagaðilar í fjórum stöðugildum, iðjuþjálfi, hjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfi, sjúkraliði og félagsliði. Ásbjörg Magnúsdóttir iðjuþjálfi, sem jafnframt er verkefnisstjóri endurhæfingarteymisins, segir fyrirmyndina sótta til Norðurlanda þar sem slík úrræði hafi verið notuð með góðum árangri síðustu 10 árin. Hún segir að með því að styrkja skjólstæðingana til meiri sjálfsbjargar, geti þeir orðið virkari og tekið meiri þátt í því sem þeir sjálfir vilja. „Við vinnum með fólki, en leysum verkefnin ekki fyrir það. Við horfum fyrst og fremst á styrkleika viðkomandi og þótt við gerum ekki ráð fyrir að endurheimta færni sem fólk bjó yfir í æsku getum við leiðbeint um orkusparandi aðgerðir og hvernig nýta má hjálpartæki. Þannig leggjum við grunn sem getur auðveldað lífið og aukið félagslega virkni og lífsgæði þeirra sem búa heima,“ segir Ásbjörg. 

Ásbjörg segir að þjónusta við hvern skjólstæðing geti orðið mjög þétt, jafnvel allt upp í 5 sinnum í viku. Í lok tímabilsins er staðan metin og ef viðkomandi er enn að sýna framfarir geti komið til framlengingar. Í öðrum tilvikum er hægt að vísa í önnur úrræði sem kunna að henta viðkomandi skjólstæðingi. Þeir sem vilja nýta sér þetta nýja úrræði Heimahjúkrunar þurfa að framvísa tilvísun frá lækni eða öðrum heilbrigðisstarfsmönnum.

Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sinnir öldruðum og sjúkum í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi með það að markmiði að þeir geti dvalist heima eins lengi og unnt er miðað við heilsufar og félagslegan aðbúnað. Heimaþjónusta Reykjavíkur sinnir hins vegar íbúum í Reykjavík og á Seltjarnarnesi og er sambærilegt verkefni nýlega hafið á hennar vegum. 

Myndatexti: Ásbjörg Magnúsdóttir verkefnisstjóri (t.v.) og Sigrún Kristín Barkardóttir svæðisstjóri heimahjúkrunar segja endurhæfingu í heimahúsi nýja persónumiðaða nálgun sem taki mið af aðstæðum skjólstæðingsins.