Mars 2018 pistill forstjóra

Mynd af frétt Mars 2018 pistill forstjóra
22.03.2018

Á annað ár hafa umræður innan HH snúist að miklu leyti um nýtt fjármögnunarkerfi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, reynslu okkar af því og afkomu einstakra stöðva í breyttu umhverfi. Með þá staðreynd á borðinu að fjárveitingar til HH hafa í besta falli staðið í stað frá hrunárinu 2008, á sama tíma og íbúum hefur fjölgað talsvert, kom ekki á óvart að fjárveiting til hins nýja líkans var engan vegin nægjanleg. En það hefur birt til á nýju ári og sjáum við á rekstrartölum fyrstu tveggja mánaða þessa árs jákvæð áhrif þeirrar 200 m.kr. fjárveitingar sem sett var í líkanið á yfirstandandi ári. Það er mikilvægt að haldið verði áfram að þróa líkanið og sníða af því annmarka. Þá verður til framtíðar að tryggja að fjármögnunarlíkanið mæti árlegri fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Frá áramótum hefur skráðum skjólstæðingum HH fjölgað um 485.       

Álag á heilsugæsluna er mikið yfir vetrarmánuðina m.a. vegna inflúensu og annarra umgangspesta, þótt flensutilfellum fari nú fækkandi. Samdægurstímar og síðdegisvakt eru hugsuð fyrir bráð erindi sem ekki þola bið auk þess sem opið aðgengi er að hjúkrunarvakt á öllum stöðvunum, en af vaktinni er vísað áfram í þjónustu lækna ef með þarf.   

Þótt umfjöllun um heilsugæsluna snúi oft að læknisþjónustu og aðgengi að henni er starfsemin innan HH fjölbreytt og umfangsmeiri en margir gera sér grein fyrir. Öflugt forvarnar- og heilsuverndarstarf er unnið innan heilsugæslunnar (mæðravernd, ung- og smábarnavernd, skólaheilsugæsla og heilsuvernd aldraðra) og öflugar miðlægar einingar (Þroska- og hegðunarstöð, Göngudeild sóttvarna og hælisleitenda, geðteymi) sinna sérhæfðri þjónustu. Þrátt fyrir þröngan fjárhag er mikill metnaður fyrir því að byggja upp og auka ýmsa þjónustu innan HH. Aukinn stuðningur stjórnvalda hin síðustu ár hefur hjálpað okkur veginn fram s.s. í uppbygginu heimahjúkrunar á Suðursvæðinu og í uppbyggingu sálfræði- og geðþjónustu. Nú er verið að koma á fót endurhæfingarteymi Heimahjúkrunar á Suðursvæðinu. Teymið verður þverfaglegt og mun veita skjólstæðingum þjónustu og hvatningu til að efla og auka lífsgæði. Tilgangurinn er að styrkja eldri borgara til að vera virkir í eigin lífi eins lengi og mögulegt er. Eitt af mörgum dæmum um ánægjulega uppbyggingu þjónustu innan HH – til hamingju með það.     

Geðteymi Austur (áður Geðheilsustöð Breiðholts) hefur nú flutt tímabundið í Heilsugæsluna Grafarvogi þar sem vel var tekið á móti starfsmönnum teymisins. Á næstu mánuðum verður farið í gagngerar endurbætur á því húsnæði sem teymið var áður í að Álfabakka 16. Á næstu mánuðum er ráðgert að Geðteymi Vestur taki til starfa og hefur teymisstjóri verið ráðinn.    

Nýtt símkerfi hefur verið innleitt í öllum starfseiningum HH. Við væntum þess að nýtt símkerfi reynist vel  og ítrekum þakkir fyrir þolinmæði og skilning starfsmanna og skjólstæðinga í innleiðingarferlinu.    

Í vikunni var samningur HH og Kópavogsbæjar um samþætta heimaþjónustu endurnýjaður til eins árs. Samningurinn felur í sér að HH sinnir sameiginlegum verkefnum heimahjúkrunar og heimaþjónustu  s.s. verkefnum tengdum persónulegri umhirðu og félagslegri virkni skjólstæðinga. Félagsliðar í hjúkrunarteymum heimahjúkrunar í Kópavogi sinna þessum verkefnum. Heimahjúkrun HH hefur umsjón með skipulagningu verkefna og heldur utan um daglega stjórnun þjónustunnar.

Framundan er Dymbilvikan og nokkurra daga Páskafrí. Njótið frídaganna hvort sem þið dveljið heima eða að heiman. 

Svanhvít Jakobsdóttir 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun