Gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir öll börn með skráðan heimilistannlækni

Mynd af frétt Gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir öll börn með skráðan heimilistannlækni
28.12.2017

Frá 1. janúar 2018 er kostnaður vegna tannlækninga barna, sem skráð eru með heimilistannlækni, greiddur að fullu af Sjúkratryggingum Íslands,  að frátöldu 2500 kr. komugjaldi sem greitt er einu sinni á 12 mánaða fresti. 

Vakin er athygli á því að börn yngri en þriggja ára eiga nú einnig rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum. 

Foreldrar/ forráðamenn bera ábyrgð á tímapöntun hjá tannlækni og skráningunni í gegnum vefsíðu SÍ  Réttindagátt – Mínar síður.  Aðgangur að gáttinni er tryggður með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Tannlæknar geta einnig klárað skráninguna þegar mætt er í bókaðan tíma. 

Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að panta tíma í fyrstu tannskoðun þegar barnið er tveggja ára. 

Tannlækningum er einungis sinnt á einkastofum tannlækna. Lista með nöfnum starfandi heimilistannlækna má nálgast á vef Sjúkratrygginga Íslands. 

Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur,  tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til nauðsynlegra tannlækninga. 

Sjá nánar á vef Sjúkratrygginga Íslands – www.sjukra.is