Aukin geðheilsuþjónusta

Mynd af frétt Aukin geðheilsuþjónusta
22.12.2017

Undirbúningur að því að efla geðheilsuþjónustu á höfuðborgarsvæðinu er nú í fullum gangi. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun á næstu tveimur árum hefja starfrækslu tveggja þverfaglegra geðheilsuteyma á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar því teymi sem starfað hefur í Breiðholti með góðum árangri undanfarin fimm ár. Auk geðheilsuteymis Breiðholts (sem verður geðheilsuteymi austur Reykjavíkur og Mosfellsumdæmis) starfrækir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins Geðheilsu - eftirfylgd, sem sinnir batahvetjandi stuðningi við einstaklinga og fjölskyldur. Stofnun teymanna er í samræmi við stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var á Alþingi 2016 og er gert ráð fyrir fjárveitingu til þessa verkefnis í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi.  Markmiðið er að fólk sem glímir við geðraskanir fái samþætta og samfellda þjónustu og hafi aðgang að þverfaglegu teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu í nærumhverfi sem komi að greiningu og meðferð. 

Nýtt geðheilsuteymi 2018 og annað 2019

Stefnt er að því að um mitt ár 2018 taki til starfa nýtt geðheilsuteymi fyrir íbúa á mið og  vestursvæði Reykjavíkur og fyrir íbúa Seltjarnarness. Ráðgert er að þetta teymi taki yfir starfsemi Geðheilsu - eftirfylgdar sem hefur verið starfrækt um árabil af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Árið 2019 er svo miðað við að þriðja geðheilsuteymið taki til starfa fyrir Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Á næstunni verður auglýst eftir teymisstjóra geðheilsuteymis mið- og vestursvæðis en um þessar mundir er verið að leita að hentugu húsnæði fyrir starfsemina. Miðað er við að í nýju geðheilsuteymi á mið- og vestursvæði verði um 10 stöður, en auk teymisstjóra munu starfa þar minnst þrír geðhjúkrunarfræðingar, sálfræðingur, geðlæknir, sjúkraliði, félagsráðgjafi, notandi þjónustu og ritari, auk iðjuþjálfa, fjölskyldumeðferðarfræðings og heilsuráðgjafa sem munu vinna þvert á teymin þrjú þegar þau verða öll tekin til starfa.  

Þarfir notenda í fyrirrúmi

Samráðshópur um samstarf Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar var skipaður í apríl síðast liðnum og var honum meðal annars falið að skilgreina hvernig geðheilsuteymin skuli starfa og hvaða þjónustu þau eigi að veita. Samráðshópurinn skilaði skýrslu sinni í september. Drög að verklagi geðheilsuteymanna liggur nú fyrir þar sem hlutverk þeirra eru skilgreind, hverjum þau þjóna og hvernig. Lögð er áhersla á þverfaglega vinnu þar sem þarfir notenda eru í fyrirrúmi og verður stuðst við gagnreyndar meðferðir og viðurkenndar klínískar leiðbeiningar. Jafnframt er lagt til að stofnaður verði rýnihópur með fulltrúum notenda þjónustunnar þar sem hægt verður að koma að ábendingum og athugasemdum um þjónustuna.    
Í samráðshópnum áttu sæti fulltrúar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar auk fulltrúa landlæknis, geðsviðs Landspítala og Geðheilsustöðvar Breiðholts.