Desemberpistill forstjóra

Mynd af frétt Desemberpistill forstjóra
20.12.2017

Í liðinni viku sendu konur í læknastétt frá sér yfirlýsingu þar sem þær lýsa kynbundinni mismunun, áreitni og kynferðislegu ofbeldi í starfi. Bættust þær við fjölmarga aðra hópa kvenna sem stigið hafa fram á undanförnum vikum. Kynbundin mismunun, ofbeldi eða áreitni af hvaða tagi sem er á ekki að líðast. Þöggunin hefur verið rofin og á ábyrgð okkar allra að vinna saman að því að útrýma þeim ósóma sem viðgengist hefur allt of lengi og allt of víða í samfélaginu. Það er yfirlýst stefna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að hjá stofnuninni eigi að ríkja góður starfsandi og starfsmenn eigi að sýna hverjir öðrum fyllstu tillitsemi og virðingu í öllum samskiptum. Hjá stofnuninni er til verklag um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað sem styður við þá sem kunna að hafa orðið fyrir slíku. Verum vakandi í samfélagi við hvert annað og munum að það er á ábyrgð okkar allra að skapa starfsumhverfi sem er öruggt og heilbrigt, þar sem góð samskipti og virðing í öllum samskiptum eru í lykilhlutverki.   

Það gleður að sjá aukin framlög til heilsugæslu í fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar. Ýmsar tölur þar um hafa birst okkur í fjölmiðlum, en við höfum fengið það staðfest að 200 m.kr. muni koma inn í fjármögnunarlíkanið til að mæta fjölgun þjónustuþega á höfuðborgarsvæðinu. Aðrar 300 m.kr. eru settar á safnlið og ákveður heilbrigðisráðherra ráðstöfun þeirrar fjárveitingar, en henni mun m.a. vera ætlað að styrkja þverfaglega þjónustu innan heilsugæslunnar. Þessu til viðbótar má nefna að 200 m.kr. voru millifærðar inn í fjármögnunarlíkanið af safnlið ráðuneytis á yfirstandandi ári og mun sú fjárveiting haldast inni á næsta ári. Við fögnum þessari aukningu til heilsugæslunnar,  því hana þarf að efla og erum við tilbúin að leggja okkar að mörkum til þess að svo megi verða.

Undir lok síðasta mánaðar staðfesti fráfarandi heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, breytingu á reglugerð um heilsugæslustöðvar sem felur í sér að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er falið að leiða faglega þróun innan heilsugæslu á landsvísu. Er það liður í því að samræma verklag og samhæfingu milli fagfólks á heilsugæslustöðvum, annast gæðaþróun og stuðla að framþróun heilsugæslu. Um langt árabil hefur verið lögð rík áhersla á þróunarstarf innan HH, auk stuðnings við vísindi og rannsóknir og samstarf við aðrar heilsugæslustöðvar. Innan Þróunarstofu HH hefur þó áherslan einkum verið á þróun heilsuverndar, þ.e. mæðraverndar, ung- og smábarnaverndar, heilsuverndar skólabarna og tannverndar, auk áherslu á lyfjamál og heildarumsjón með kennslu heilbrigðisstétta. Fyrr á þessu ári var Jón Steinar Jónsson, heimilislæknir, ráðinn í 30% starf hjá stofnuninni til að vinna að ýmsum gæðaverkefnum innan heilsugæslunnar. Við fögnum breytingu á reglugerð um heilsugæslustöðvar og hlökkum til aukins samstarfs við heilsugæslustöðvar í landinu.

Innleiðing nýs fjármögnunarlíkans heilsugæslustöðva hefur verið fyrirferðarmikil innan HH á árinu, sem í sjálfu sér kemur ekki á óvart í ljósi þess að hér er um mikla breytingu að ræða. Fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands, velferðarráðuneytis, HH og annarra heilsugæslustöðva hafa haft með sér reglulega samráðsfundi um forsendur líkansins og hefur ýmsu orðið ágengt til betri vegar, þó svo að mati HH megi gera enn betur. Tvö atriði tengd framkvæmd fjármögnunarlíkansins höfum við tekið upp við ráðuneytið. Annað þeirra er að til verði vettvangur, sem taki til meðferðar ágreiningsmál varðandi útfærslu og rekstur kerfisins. Hitt er að eftirliti með rekstri kerfisins, sem enn er að stærstum hluta óvirkt og svo virðist sem aðilum sé ekki ljóst hvernig eftirlitið eigi að fara fram eða hvaða aðilar eigi að sinna því, verði komið í viðunandi horf.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að setja upp móttökustanda eða sjálfsafgreiðsluvélar á  heilsugæslustöðvum HH og væntum við þess að innan örfárra vikna verði standarnir komnir á allar stöðvar. Til að byrja með gagnast vélarnar þeim sem sækja gjaldfrjálsa þjónustu eins og  mæðravernd og ung- og smábarnavernd. Unnið er að tæknilausnum svo nýta megi vélarnar þegar um aðra þjónustu er einnig að ræða og vonandi ekki langt að bíða með það. Móttökustandarnir minnka álag á starfsfólk í móttökunni og skapa svigrúm til að veita öðrum þeim sem þess þurfa betri þjónustu.   

Um miðjan mánuðinn tóku sjö starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við viðurkenningu fyrir 25 ára starf hjá stofnuninni. Öllum þeim sem tóku við viðurkenningu eru færðar innilegar þakkir fyrir hollustu og tryggð og þjónustu við höfuðborgarbúa. Framlag ykkar er ómetanlegt. 

Nú nálgast sá dagur þegar sólin er lægst á lofti og það styttist í hátíð ljóss og fríðar. Ég óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gleðilegrar hátíðar og heillaríks komandi árs. 

Svanhvít Jakobsdóttir

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun