Októberpistill forstjóra

Mynd af frétt Októberpistill forstjóra
18.10.2017

Kosið verður að nýju til Alþingis síðar í mánuðinum. Enn á ný er umræða um eflingu heilbrigðisþjónustunnar, þ.m.t. eflingu heilsugæslunnar, fyrirferðarmikil í orðræðunni. Þannig var það einnig fyrir ári síðan og í aðdraganda kosninga þar á undan. Ef horft er til þess fjárlagafrumvarps sem lagt var fram fyrir um mánuði síðan finnst okkur fara lítið fyrir efndum á þessu sviði. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um rúm 20 þúsund frá efnahagshruni, en fjárveiting til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er á sama tíma nokkuð undir því sem hún var á árunum fyrir hrun. Tilkoma tveggja nýrra heilsugæslustöðva er að sjálfsögðu til góða fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, en ef horft er til fjárlagafrumvarpsins virðist ekki vera meiningin að fjármagna þær að fullu, heldur verði fjármögnun þeirra að hluta til með tilfærslu fjár frá þeim stöðvum sem þegar eru starfandi á svæðinu. Þá verður tilurð þeirra ekki sú efling þjónustu sem ætla  má fyrir höfuðborgarbúa.

Við fögnum auknum framlögum til uppbyggingar sálfræði- og geðþjónustu sem boðaðar eru innan heilsugæslunnar á næsta ári enda löngu brýnt að efla þjónustu heilsugæslunnar á því sviði.

Innan heilsugæslunnar fer fram stöðugt umbótastarf. Frá árinu 2015 höfum við lagt aukna áherslu uppbyggingu teymisvinnu innan heilsugæslunnar, sem og að við nýtum okkur aðferðir straumlínustjórnunar (lean). Allt miðar þetta að því að reyna, innan okkar þrönga fjárhagsramma, að bæta aðgengi að þjónustunni, bæta ferla og létta álag á starfsfólki eins og unnt er. Innan skrifstofu HH hefur á síðustu vikum verið unnið að því að fara yfir ýmsa verkferla til að bæta stoðþjónustuna. Þá hefur framkvæmdastjórn tekið í gagnið svokallaða VMS töflu á fundum sínum, í þeim tilgangi að halda betur utan um og fylgja betur eftir mikilvægum verkefnum innan stofnunarinnar.

Framkvæmdastjórn og svæðisstjórar/stjórnendur stöðva funda mánaðarlega um sameiginleg umbótamálefni. Októberfundurinn var í þetta sinn í lengri kantinum, eða heilsdags vinnufundur, þar sem mannauðsmál, fjármál og sameiginleg verkefni svæðisstjóra/samráðsfundar voru m.a. til umræðu í smærri og stærri hópum.         

Álag og erill eykst jafnan í heilsugæslunni á haustmánuðum. Innflúensubólusetningar eru nú í fullum gangi á öllum stöðvum, en á þessum árstíma má og búast við auknu álagi vegna ýmissa umgangspesta. Starfsfólk heilsugæslunnar leggur sig allt fram við að leysa úr öllum erindum og má m.a. í því sambandi benda á dagvakt hjúkrunar sem vinnur náið með læknum og öðru starfsfólki stöðvanna og tryggir að erindi allra komist í réttan farveg.    

Heilsugæslan hefur að undanförnu lagt áherslu að kynna betur þá fjölþættu starfsemi sem fer fram innan heilsugæslunnar. Í þeim tilgangi hefur verið tekin ákvörðun um gerð þriggja myndbanda. Eitt þessara myndbanda, um sálfræðiþjónustu, er tilbúið og komið í birtingu.    

Njótum haustlitanna á meðan þeir skarta sínu fegursta og munum að útivera er góð fyrir líkama og sál.

Svanhvít Jakobsdóttir

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun