Samráðshópur leggur til tvö ný geðheilsuteymi

Mynd af frétt Samráðshópur leggur til tvö ný geðheilsuteymi
15.09.2017

Samráðshópur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um geðheilsuþjónustu borgarbúa leggur til að sett verði á laggirnar tvö ný geðheilsuteymi á höfuðborgarsvæðinu. Annars vegar fyrir íbúa í vestur-Reykjavík (Laugardalur, Háaleiti, Miðborg, Hlíðar og Vesturbær) og hins vegar fyrir Kragasvæðið (Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður). Fyrir er Geðheilsuteymi Breiðholts en samstarf þess við Þjónustumiðstöð Breiðholts þykir hafa skilað góðum árangri síðast liðin fimm ár og sýnt fram á mikilvægi slíks þverfaglegs samstarfs.

Samráðshópurinn var settur á laggirnar í apríl 2017 í framhaldi af ályktun Alþingis 2016 um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Eitt af aðalmarkmiðum áætlunarinnar var að koma á samþættri og samfelldri þjónustu við einstaklinga með geðraskanir.

Í skýrslu samráðshópsins er miðað við að geðheilsuteymi vestur-Reykjavíkur taki til starfa í janúar 2018 en geðheilsuteymi Kragans ári síðar. Þá er lagt til að í framhaldinu verði komið á geðheilsuteymi á landsvísu í byrjun árs 2020. Gert er ráð fyrir að þverfagleg teymi 12 til 16 heilbrigðisstarfsmanna starfi í hverju geðheilsuteymi sem verði skipað geðhjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, læknum, félagsráðgjöfum, iðjuþjálfum, fjölskyldumeðferðarfræðingum, sjúkraliðum og heilsuráðgjöfum auk skrifstofufólks.

Samráðshópnum var jafnframt falið að skilgreina vinnu og þjónustu geðheilsuteymanna. Í skýrslu samráðshópsins sem skilað var í byrjun september 2017 er hlutverk geðheilsuteymanna skilgreint og sett fram drög að verklagsreglum með áherslu á þverfaglega vinnu þar sem þarfir notenda eru í fyrirrúmi. Gerðar eru tillögur um verkferla sem taka mið af vinnu geðteyma í Bretlandi og í Geðheilsuteymi Breiðholts. Í skýrslu sinni leggur samráðshópurinn áherslu á einstaklinga sem glíma við geðrænan vanda og eru 18 ára og eldri, en jafnframt kemur fram að útfæra þurfi þjónustuna þannig að hún nái til allra hópa.

Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Regina Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar segja að skýrsla samráðshópsins sé nú til skoðunar í samstarfi Heilsugæslunnar og velferðarsviðsins og næsta skref sé að tryggja áframhaldandi efnislega framvindu málsins.

Skýrsla samráðshópsins

Nánari upplýsingar:

Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, s: 585-1300
Regina Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, s: 411-1111