Tvö ný geðteymi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Mynd af frétt Tvö ný geðteymi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
21.08.2017

Við vekjum athygli á áhugaverðu viðtali á Stöð 2 við Erik Brynjar Schweitz Eriksson yfirlækni um árangursríkt starf Geðheilsustöðvar Breiðholts og fjölgun geðteyma hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Starfsemi Geðheilsustöðvar Breiðholts byggir á þjónustu þverfaglegs geðteymis. Í teyminu starfa hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sálfræðingur, geðlæknir og liðveitandi. Þjónustan er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem greindir eru með geðsjúkdóma og þurfa á þverfaglegri aðstoð ásamt þéttri eftirfylgd að halda.

Geðheilsustöðin er annars stigs geðheilbrigðisþjónusta og því hugsuð fyrir þá einstaklinga sem þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu en er veitt á heilsugæslustöðvum. Þjónustan er veitt með heimavitjunum og viðtölum í húsnæði geðteymisins.  
 
Þann 1. mars 2017 fluttist Geðheilsustöð Breiðholts frá Velferðarsviði Reykjavíkur til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þjónusta teymisins hélt áfram óbreytt enda hefur verið sýnt fram á góðan árangur. Geðteymið á Geðheilsustöð Breiðholts hefur þjónað austurhluta borgarinnar þ.e. íbúum Breiðholts, Árbæjar, Grafarvogs, Norðlingaholts og Grafarholts.
 
Nú hefur verið stofnaður samráðshópur innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að vinna að undirbúningi þess að stofna tvö teymi til viðbótar, annað fyrir vesturhluta borgarinnar og hitt fyrir Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ. Áætlað er að geðteymið í vesturborginni byrji á fyrstu mánuðum 2018 og hitt ekki síðar en í ársbyrjun 2019.
 
Þessi nýju teymi eru hluti af því að bæta geðheilbrigðisþjónusu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.