Maípistill forstjóra

Mynd af frétt Maípistill forstjóra
24.05.2017

Nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu tók gildi í byrjun mánaðarins. Markmið hins nýja kerfis er að lækka útgjöld einstaklinga sem þurfa mikla heilbrigðisþjónustu og hafa fram til þessa greitt háar fjárhæðir fyrir heilbrigðisþjónustu. Nýja greiðsluþátttökukerfinu er einnig ætlað að styrkja hlutverk heilsugæslunnar, en frá sama tíma eða 1. maí sl. tók gildi reglugerð sem kveður á um tilvísanaskyldu fyrir börn. Börn yngri en 18 ára með tilvísun frá heimilis- eða heilsugæslulækni greiða nú ekkert gjald fyrir komu til sérgreinalæknis, en önnur greiða 30% af umsömdu verði fyrir viðtalið. Börn með umönnunarmat og börn yngri en tveggja ára þurfa ekki tilvísun til að fá gjald hjá sérfræðilækni fellt niður.

Of snemmt er að leggja mat á reynslu heilsugæslunnar af þessari breytingu. Heilt yfir hefur þetta gengið vel og hafa engin meiriháttar vandamál komið upp í framkvæmdinni þessar fyrstu vikurnar og vonandi verður svo áfram. Að sjálfsögðu hafa símtöl og fyrirspurnir verið þó nokkrar og ákveðins misskilnings gætt varðandi það hverjir þurfi á tilvísun að halda. Allt starfsfólk hefur lagt sig fram við að greiða götu þessara breytinga, upplýsa skjólstæðinga heilsugæslunnar og koma erindum allra í réttan farveg. 

Ómögule
gt er að segja til um áhrif nýja greiðsluþátttökukerfisins á sértekjur HH. Ætla má að fleiri einstaklingar leiti nú til heilsugæslunnar sem náð hafa greiðslumarki, en hver áhrifin af því verða á sértekjur stofnunarinnar, verður tíminn að leiða í ljós. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er auknum framlögum í áætluninni m.a. ætlað að mæta kostnaði við hið nýja greiðsluþátttökukerfi og treystum við því að þar verði bæði horft til viðbótarverkefna hjá HH og hugsanlegs tekjumissis. 

Heilbrigðisráðherra ákvað fyrr á árinu að fjölga stöðum sálfræðinga í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu um fjórar sem þýðir að stöðum sálfræðinga á stöðvum HH mun fjölga um 2,8. Við fögnum þessari fjölgun og þeirri auknu þjónustu sem leiðir af henni. Við munum halda áfram að styrkja þjónustu við börn á svæðinu, en einnig gerir þessi fjölgun sálfræðinga okkur kleift að bæta í þjónustu við 18 ára og eldri. Fyrir þessa fjölgun voru stöður sálfræðinga 11,7 eða hálf til ein staða á hverri þeirra 15 stöðva sem heyra undir HH. Þjónusta við fullorðna hefur fram til þessa falist í hópnámskeiðum í hugrænni atferlismeðferð (HAM), sem sálfræðingar leiða ásamt hjúkrunarfræðingum sem fengið hafa sérstaka þjálfun.

Í febrúar og mars hafa 100 hjúkrunarfræðingar sótt stutt námskeið í undirstöðuatriðum hugrænnar atferlismeðferðar. Hjúkrunarfræðingar koma nú einnig að hópnámskeiðum í hugrænni atferlismeðferð með sálfræðingum og er það liður í að efla þverfaglegt starf innan heilsugæslunnar. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun fjölga HAM námskeiðum frá næsta hausti, en það er gagnreynt úrræði sem hefur gefið góðan árangur fyrir einstaklinga með væga til miðlungsalvarlega kvíðaröskun og/eða þunglyndi.

Haldið var upp á alþjóðadag hjúkrunar í mánuðinum eða nánar tiltekið þann 12. maí sl. á fæðingardegi Florence Nightingale, vísindamanns og frumkvöðuls í nútímah
júkrun. Dagurinn leiðir huga okkar að mikilvægu og ómissandi starfi hjúkrunarfræðinga í heilbrigðisþjónustunni. Hjá HH starfar hæfileikaríkur hópur hjúkrunarfræðinga sem tekið hefur virkan þátt í uppbyggingu og þróun heilsugæslunnar og sinnir fjölþættum verkefnum, m.a. mikilvægu forvarnar- og heilsueflingarstarfi (ung- og smábarnavernd, skólaheilsugæsla, heilsuvernd aldraðra), vaktþjónustu (smáslysa- og bráðaþjónusta), heimahjúkrun, auk þess að sinna ýmissi fræðslu og ráðgjöf. Það er stefna HH að auka teymisvinnu og þverfaglegt starf innan heilsugæslunnar svo bjóða megi íbúum höfuðborgarsvæðisins samfellda og alhliða heilsugæsluþjónustu. Þar sjáum við þátt hjúkrunarfræðinga vaxandi. 

Gangi okkur sem fyrr vel við dagleg störf – Njótum veðurblíðunnar og munum að útvera er góð fyrir líkama og sál. 

Svanhvít Jakobsdóttir 

 

 

Ábyrgð – Fagmennska – Traust – Þjónusta – Framþróun