Ískrá – Rafrænt sjúkraskrárkerfi í heilsuvernd skólabarna

Mynd af frétt Ískrá – Rafrænt sjúkraskrárkerfi í heilsuvernd skólabarna
19.12.2016

Ískrá er rafrænt sjúkraskrárkerfi sem skólahjúkrunarfræðingar á öllu landinu nota í heilsuvernd skólabarna. Sjúkraskrárkerfið, sem er hannað og í eigu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, heldur meðal annars utan um bólusetningar, skimanir  og samskipti við skólabörnin og forráðamenn þeirra.

Ískrárkerfið er í stöðugri þróun og var ný  samskiptaskráning innleidd nú á dögunum. Þessar breytingar munu veita  skólahjúkrunarfræðingum betri yfirsýn og styðja við starfsemina í komandi framtíð. 

Þróunarvinna við Ískrá er unnin á Deild rafrænnar þjónustu og Þróunarsviði HH. Einn helsti  kostur kerfisins er hversu auðvelt er að aðlaga það að þörfum starfseminnar og notenda. Árlega eru teknar út starfsemistölur úr Ískrá til endurgjafar og gæðastarfs fyrir heilbrigðisstofnanirnar í landinu auk þess sem skoðuð eru gögn  um heilsufar skólabarna á landsvísu. 

Árlega eru einnig haldnir svokallaðir Ískrárdagar þar sem þjónustustjóri Ískrár og sviðsstjóri skólasviðs HH hitta alla notendur kerfisins. Þessir Ískrárdagar hafa verið mjög vinsælir og vel sóttir en markmið þeirra er að samræma skráningu og verklag í heilsuvernd skólabarna á landsvísu.