Læknavaktin tekur yfir kvöld og helgarþjónustu fyrir Mosfellsumdæmi

Mynd af frétt Læknavaktin tekur yfir kvöld og helgarþjónustu fyrir Mosfellsumdæmi
02.11.2016

Frá og með 1. febrúar 2017 mun Læknavaktin á Smáratorgi sinna allri vaktþjónustu í Mosfellsumdæmi eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi breyting er liður í að samræma vaktþjónustu heimilislækna á  höfuðborgarsvæðinu. Íbúar í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósarhreppi hafa eins og aðrir á höfuðborgarsvæðinu haft aðgang að vaktþjónustu Læknavaktarinnar en að auki hafa læknar á heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ verið með vaktþjónustu fyrir íbúa svæðisins utan dagvinnutíma og um helgar.

Í nýrri kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir rekstur heilsugæsluþjónustu, sem tekur gildi um áramótin, er ekki gert ráð fyrir að rekin sé  vaktþjónusta heimilislækna á næturnar. Vaktþjónusta Læknavaktarinnar er opin á kvöldin og um helgar.

Samkvæmt kröfulýsingunni og nýju greiðslukerfi heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, sem einnig tekur gildi um áramótin, standa heilsugæslustöðvar framvegis straum af kostnaði við kvöld- og helgarþjónustu fyrir skjólstæðinga sína. Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Læknavaktina ehf. um að taka rekstur þessarar þjónustu yfir á öllu svæðinu. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur í framhaldinu tilkynnt læknum á heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ að vaktþjónusta á vegum heilsugæslustöðvarinnar um nætur og helgar muni falla niður frá og með 1. febrúar 2017.

Almennur þjónustutími á Heilsugæslunni Mosfellsumdæmi er frá 8 til 16 virka daga og verður boðið upp á síðdegisvakt milli klukkan 16 og 18 virka daga.