Fimm útskrifast með diplómagráðu í klínískri heilsugæsluhjúkrun

Mynd af frétt Fimm útskrifast með diplómagráðu í klínískri heilsugæsluhjúkrun
21.06.2016

Þann 11. júní 2016 útskrifuðust fimm hjúkrunarfræðingar með diplómagráðu í klínískri heilsugæsluhjúkrun frá Háskólanum á Akureyri (HA). Allir hjúkrunarfræðingarnir hafa nú skráð sig í meistaranám við HA.

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, úthlutaði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) fjármagni árið 2015 til að koma á fjórum 80% launuðum  sérnemastöðum fyrir hjúkrunarfræðinga til framhaldsnáms í heilsugæslu. Stjórnendur HH bættu við einni stöðu til viðbótar og fimm nemar voru ráðnir. Einnig gerðu HA og HH með sér samkomulag um að HH greiddi fyrir 10 eininga námskeiðið Heilsugæsla og heilsuefling haustið 2015. Fyrir árið 2016 hefur Heilbrigðisráðherra úthlutað átta námsstöðum, þar af fjórum við HH auk þess sem stjórnendur HH fjármagna tvær stöður stöður til viðbótar

Meðal annars er lögð er áhersla á að sérnámshjúkrunarfræðingarnir öðlist dýpri þekkingu og sérhæfingu í viðfangsefnum heilsugæsluhjúkrunar í íslensku og alþjóðlegu samhengi og þróun og styrkingu sérnámshjúkrunarfræðings sem sjálfstæðs meðferðaraðila í þverfaglegu samstarfi.

Of snemmt er að meta áhrif námsins á þróun og gæði hjúkrunar innan heilsugæslunnar en það hafði strax jákvæð áhrif bæði á nemendur og heilsugæslustöðvar að sérnámshjúkrunarfræðingarnir fóru allir á nýja stöð. Það hafði í för með sér miklar umræður um mismunandi starfshætti og tækifæri innan hjúkrunar á heilsugæslustöðvum. Það vakti einnig áhuga annarra hjúkrunarfræðinga á að fara í námið.

Nánari upplýsingar um námið, skipulag þess og hvernig gekk í vetur er að finna í þessum þremur skjölum.

Heilsugæsla í héraði - klínísk námsleið 2015-16

Heilsugæsla í héraði - yfirlit yfir námsleiðirnar tvær

Yfirlit yfir klínísku námskeiðin Heilsugæsla I og II 2015-16

Meðfylgjandi mynd var tekin síðastliðið haust af hjúkrunarfræðingunum fimm, þær eru frá vinstri Kristín Guðný Sæmundsdóttir, Anna Ólafsdóttir, Ósk Guðmundsdóttir, Þorgerður Einarsdóttir og Alma María Rögnvaldsdóttir.

Við óskum þeim til hamingju með áfangann.