Opnun starfstöðvar heimahjúkrunar í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi

Mynd af frétt Opnun starfstöðvar heimahjúkrunar í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi
07.06.2016

Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi  hefur verið sameinuð og verður framvegis rekin sem ein eining í stað fjögurra áður.  Með  sameiningunni er stefnt að því að ná fram hagræðingu og auka sveigjanleika í rekstrinum  þannig að hægt verði að koma betur til móts við þarfir þeirra sem njóta þjónustunnar. Gert er ráð fyrir að með stærri rekstrareiningu og samræmdum verkferlum verði auðveldara að bregðast við óvæntum aðstæðum sem upp geta komið og að hægt verði að sinna betur sjúklingum sem útskrifast af Landspítala og draga þannig úr svokölluðum fráflæðivanda spítalans.

Ný starfsstöð sameinaðrar Heimahjúkrunar var tekin formlega í notkun í 2. júní en starfsemin hófst 9. maí. Stöðin er til húsa að Hlíðasmára 17 í Kópavogi sem er nálægt miðju þjónustusvæðisins og liggur vel við helstu stofnbrautum en það kemur sér vel því stærstur hluti þjónustunnar fer fram á heimilum skjólstæðinga í bæjarfélögunum þremur.

Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði við þetta tækifæri að með sameinaðri heimahjúkrun á suðursvæði höfuðborgarsvæðisins væri stefnt að markvissri, faglegri, sérhæfðri og skilvirkri heimahjúkrun sem komi til móts við þarfir þeirra sem njóta þjónustunnar. Hún sagðist telja að með nýju skipulagi verði hægt að bæta og stytta boðleiðir milli Heimahjúkrunar og mikilvægra stofnana velferðarkerfisins.

Á fjárlögum 2016 var framlag til heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 100 milljónir króna til að efla þjónustuna á ný eftir niðurskurð í kjölfar efnahagshrunsins. Þess er vænst að nú verði hægt að verja lengri tíma með þeim notendum sem þess þurfa og að biðlistar eftir þjónustunni sem hafa verið viðvarandi síðustu ár muni styttast og jafnvel hverfa. Alls eru 75 starfsmenn í sameinaðri heimahjúkrun suðursvæðis sem veita að jafnaði  um 680 skjólstæðingum þjónustu á hverjum tíma. Markmið heimahjúkrunar er að gera sjúkum og öldruðum kleift að dveljast heima, við sem eðlilegastar og bestar aðstæður eins lengi og unnt er miðað við heilsufar og félagslegan aðbúnað þeirra. 

Nánar má lesa um þjónustuna á síðum Heimahjúkrunar HH hér á vefnum

Á myndinni eru vinstri: Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sigrún Kristín Barkardóttir svæðisstjóri Heimahjúkrunar og Þórunn Ólafsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar við formlega opnun sameinaðrar starfsstöðvar Heimahjúkrunar í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.