Drekkum vatn, verum hraust - Dagur um offitu 21. maí

Mynd af frétt Drekkum vatn, verum hraust - Dagur um offitu 21. maí
23.05.2016

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur offitu vera stærsta lýðheilsuvandamál 21. aldarinnar en algengi offitu hefur þrefaldast frá árinu 1980 í mörgum löndum Evrópu. Talið er að meira en helmingur allra Evrópubúa muni þjást af offitu árið 2030 og í sumum löndum allt að 90% landsmanna. Mun sjúkdómurinn hafa veruleg áhrif á útgjöld til heilbrigðismála í framtíðinni og einnig hafa áhrif á framleiðni þjóðanna. 

Evrópusamtök um rannsóknir á offitu (EASO) vekja athygli á ástandinu og hvetja til aukinnar þekkingar og skilnings á offituvandanum með Degi um offitu þann 21. maí.  Nauðsynlegt er að auka þekkingu á sjúkdómnum offitu og þeim fjölmörgu sjúkdómum sem honum fylgja, svo sem sykursýki týpu 2, hjarta- og æðasjúkdómum og ýmsum tegundum krabbameins.

Í tilefni dagsins hefur Félag fagfólks um offitu á Íslandi valið að leggja áherslu á vatnsdrykkju í stað neyslu sykraðra drykkja með útgáfu veggspjalda til að minna á vatnið sem fyrsta valkost.

Er það von FFO að veggspjöldin veki athygli og leiði til þess að börn og fullorðnir fái að njóta þess góða drykkjarvatns sem við eigum. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er meðal styrktaraðila veggspjaldanna.

Hér er hægt að skoða veggspjaldið: