Framlög til aukningar á þjónustu HH um 230 milljónir

Mynd af frétt Framlög til aukningar á þjónustu HH um 230 milljónir
10.09.2015

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir hækkun fjárheimilda Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um 842 milljónir króna. Þar af er 601 milljón ætluð til að standa undir launahækkunum vegna kjarasamningum við lækna, hjúkrunarfræðinga og aðra starfsmannahópa. En um 230 milljónir fara hins vegar til að efla þjónustu heilsugæslustöðva með ráðningu nýrra starfsmanna.

Þetta er í fyrsta skipti sem umtalsverð aukning verður á fjárheimildum HH frá því um hrun. Raunútgjöld HH hafa síðan um hrun verið skorin niður um 13%, en eftir þessa aukningu til nýrra verkefna verða útgjöld stofnunarinnar um 9% lægri en þau voru fyrir hrunið.

Þeir viðbótarfjármunir sem HH fær samkvæmt frumvarpinu skipast þannig að verja á 100 milljónum til að efla heimahjúkrun í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi, 34,4 milljónum til að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðvum, 80 milljónum til að fjölga sérfræðingum í heimilislækningum og 18 milljónum til að fjölga læknum sem stunda sérfræðinám í heimilislækningum.

Fjárhagsrammi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er 6,47 milljarðar kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þar af er gert ráð fyrir að stofnunin afli 635 milljóna í sértekjur.