Jafnvægi í rekstri HH 2014

Mynd af frétt Jafnvægi í rekstri HH 2014
20.07.2015

Rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var í jafnvægi á árinu 2014. Samkvæmt rekstrarreikningi nam hagnaður HH um 16,1 milljón kr., sem jafngildir 0,3% af veltu stofnunarinnar á árinu. Er þetta fimmta árið í röð sem rekstur HH er innan fjárheimilda ríkissjóðs.

Þess ber þó að geta að við gerð kjarasamnings við lækna í janúar sl. hækkuðu launagreiðslur vegna 2014 um rekstrarafganginn og rúmlega það, en ekki var mögulegt að bókfæra kostnaðinn á rétt ár.

Alls námu útgjöld HH um 5,63 milljörðum kr. á árinu 2014. Þar af námu launagjöld um 4,1 milljarði kr., eða 73% af heildarútgjöldum. Rekstrarframlag ríkisins nam 4,96 milljörðum kr. og sértekjur urðu 685 milljónir.

Séu útgjöldin á árinu borin saman við árið á undan þá hækkuðu heildarútgjöld um 130 milljónir á milli ára, eða um 2,4%. Launakostnaður jókst um 2,3%, en önnur útgjöld hækkuðu um 3,4%. 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins starfrækir 15 heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, auk þriggja starfsstöðva með sérhæfðari þjónustu.