Heilsuvera.is valinn besti íslenski vefurinn 2014

Mynd af frétt Heilsuvera.is valinn besti íslenski vefurinn 2014
02.02.2015

Íslensku vefverðlaunin voru afhent 30. janúar við hátíðlega athöfn í Gamla Bíó. Íslensku vefverðlaunin eru árleg uppskeruhátíð vefiðnaðarins á Íslandi, haldin með það að markmiði að efla iðnaðinn, verðlauna framúrskarandi verkefni og hvetja þá sem starfa í vefiðnaðinum til dáða. Vefverðlaunin hafa vaxið og dafnað með hverju árinu, þau voru fyrst veitt árið 2000 en undanfarin ár hefur dómnefnd farið yfir  á annað hundrað tilnefningar.

Í ár voru veitt verðlaun í 15 flokkum en fjöldi flokkanna endurspeglar breidd þeirra verkefna sem vefiðnaðurinn á Íslandi kemur að. Dómnefnd valdi sigurvefina í 13 flokkum en félagsmenn SVEF völdu athyglisverðasta vefinn. Á vef SVEF eru nánari upplýsingar um verðlaunin.

Heilsuvera.is var valinn besti íslenski vefurinn 2014.

Hér eru ummæli dómnefndar um besta íslenska vefinn:

Fyrsta stefna ríkisstjórnar Íslands um rafræna stjórnsýslu kom út árið 1996 og frá þeim tíma hafa alls verið gefnar út fjórar stefnur. Mikið hefur verið talað um að þeim stefnum hafi ekki verið fylgt nægilega vel eftir og spurningar hafa vaknað um hvort við séum að dragast aftur úr nágrannaþjóðum okkar þegar kemur að þessum efnum. 

Með tilkomu rafræna skilríkja hefur opnast nýr heimur tækifæra og hefur árið 2014 verið tími umbyltinga þegar kemur að rafrænni þjónustu á Íslandi.  

Besti Íslenski vefurinn árið 2014 er sérlega glæsilegt verkefni sem fellur undir þennan flokk. Það hefur skapað sérstöðu með rafrænum samskiptum og öruggum aðgangi að viðkvæmum upplýsingum með rafrænni auðkenningu, sem býður upp á nýja möguleika á útfærslum fyrir hugmyndir sem hafa legið í hugum manna árum saman.  

Dómnefndinni þótti þetta verkefni sérstaklega skara framúr í þessu samhengi og vonum við að þessu verkefni verði fylgt eftir á öllum sviðum stjórnsýslunnar í þeim tilgangi að auka þægindi og lífsgæði allra landsmanna. 

Við erum með sannri ánægju stolt að viðurkenna og verðlauna þetta verk sem kemur til með að veita Íslendingum nýja yfirsýn og áður óþekkt þægindi í samskiptum við heilbrigðisþjónustu á Íslandi. 

Þetta er auðvitað heilsuvera.is, samstarfsverkefni TM Software, Embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins