Samningur um Heilsutorg háskólanema

Mynd af frétt Samningur um Heilsutorg háskólanema
26.09.2014

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Ófeigur T. Þorgeirsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins undirrituðu í vikunni samstarfssamning um Heilsutorg háskólanema. Samningurinn nær til þriggja ára, eða til ársins 2017 og kveður á um þróun og rekstur þverfræðilegrar heilbrigðismóttöku fyrir háskólanema. 

Á Heilsutorgi munu nemendur Háskóla Íslands geta sótt heildræna heilbrigðisþjónustu. Þjónustuna veita nemendur í framhaldsnámi við Heilbrigðisvísindasvið undir handleiðslu leiðbeinanda. Unnið er með hvern þjónustuþega í þverfræðilegu teymi sem samanstendur af fjórum til fimm nemendum úr mismunandi fræðigreinum heilbrigðisvísinda. Í ár koma nemendur t.d. úr hjúkrunarfræði, ljósmóðurfræði, lyfjafræði, læknisfræði, matvæla- og næringarfræði, sálfræði og sjúkraþjálfun en hvert teymi er samansett út frá þörfum þjónustuþegans. Hugmyndafræði Heilsutorgs byggir á því að þjónustuþeginn er sjálfur virkur þátttakandi í teymisvinnunni og hefur þar af leiðandi áhrif á eigin meðferð. Leitast verður við að bjóða þjónustuþegum eftirfylgni og samfellu í þjónustuferlinu. Þeir sem þurfa sérhæfðari aðstoð verður vísað áfram til viðeigandi þjónustuaðila. 

Að sögn Ingu Þórsdóttir, forseta Heilbrigðisvísindasviðs, á verkefnið sér ekki beina erlenda fyrirmynd en hún bendir jafnframt á að úti í hinum stóra heimi sé lögð vaxandi áhersla á þverfræðilegt samstarf í námi og störfum heilbrigðisstétta.  
Undirritunin fór fram í Heilsugæslunni Glæsibæ að viðstöddum fulltrúum frá Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Móttakan á Heilsutorgi mun hefja starfsemi sína þann 7. október nk. og verður opið þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 16-18. Heilsutorg  er í húsakynnum Heilsugæslunnar Glæsibæ. Opnað verður fyrir tímapantanir innan skamms.

Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu Heilsutorgs: heilsutorg.hi.is/

Á myndinni frá undirritun samningsins má sjá Kristínu Ingólfsdóttur, Jónas Guðmundsson, Sigrúnu K. Barkardóttur, Halldór Jónsson, Svanhvít Jakobsdóttur, Ófeig T. Þorgeirsson, Ingu Þórsdóttur og Sóley S. Bender.