Fjárlagafrumvarpið boðar óbreytt ástand fyrir HH

Mynd af frétt Fjárlagafrumvarpið boðar óbreytt ástand fyrir HH
22.09.2014

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir 2015 fær Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nokkurn veginn sömu fjárheimildir frá ríkissjóði eins og á árinu 2014. Frumvarpið gerir ráð fyrir tæplega 5,2 milljarða fjárheimildum, samanborðið við 4,9 milljarða á þessu ári. Hækkunin er 5,2%, sem að stærstum hluta er uppfærsla vegna hækkunar á launasamningum og verðlagi á milli áranna.

Ennfremur er viðbót vegna afturköllunar á hluta af aðhaldsaðgerðum sem til stóð að efna til á þessu ári. Fjárlögin fyrir 2014 fólu í sér 100 milljóna kr. lækkun á fjárheimildum til HH. Að auki glímdi HH við 50 milljóna kr. hækkun á kostnaði vegna lækningarannsókna. Á grundvelli þessa vanda lagði HH fram aðgerðaráætlun til lækkunar á útgjöldum. Velferðarráðuneytið samþykkti ekki nokkrar þeirra aðgerða og beitti sér fyrir viðbótarframlagi til að fjármagna afturköllun þeirra. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2015 er 70 milljóna framlag til að halda áfram þeirri fjármögnun.   

Í fjárlagafrumvarpinu felst því óbreytt ástand. Það skapar ekki forsendur til að bakka með aðhaldsaðgerðir stofnunarinnar á síðustu árum. Samtals hefur fjárlagagrunnur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verið lækkaður um nálægt 500 milljónir kr. frá bankahruni. 

Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri sagði í viðtali við RÚV (Samfélagið, Rás1, 17. september) að hún hefði viljað sjá raunverulega aukningu fjár til heilsugæslunnar. “Við teljum að það sé orðið mjög brýnt að heilsugæslan geti sinnt þeim verkefnum sem hennar bíða og er hennar hlutverk að sinna. Það er orðið löngu tímabært að heilsugæslunni verði gert kleift að standa undir væntingum um að hún verði fyrsti viðkomustaðurinn inn í heilbrigðiskerfið, eins og flestir eru sammála um”, sagði Svanhvít.