Átt þú eftir að fá afsláttarkort?

Mynd af frétt Átt þú eftir að fá afsláttarkort?
27.08.2014

Þegar líður á árið eiga margir sjúkratryggðir einstaklingar rétt á afslætti af komugjöldum og rannsóknagjöldum á heilbrigðisstofnunum.  Þú getur farið á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands, (farið á sjukra.is og inn á réttindagátt með kennitölu og íslykli) og athugað hvort þú átt rétt á afslætti það sem eftir er ársins. Veist þú hvort þú átt rétt á afslætti?

Eftirtalin gjöld sem greidd hafa verið á árinu eru lögð saman til að ákveða hvort sjúklingurinn á rétt á afslætti á frekari heilbrigðisþjónustu:

  • komur á heilsugæslustöð eða til heimilislæknis
  • vitjanir lækna
  • komur á slysadeild, göngudeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa,
  • komur/endurkomur á göngudeild sjúkrahúss vegna þjónustu annarra en lækna
  • komur til sérfræðilækna utan sjúkrahúsa
  • komur til sérfræðilækna á göngudeild sjúkrahúsa
  • rannsóknagjöld vegna rannsókna á heilsugæslustöðvum og rannsóknastofum
  • geisla- og myndgreininga og beinþéttnimælingar
  • sérfræðiviðtöl hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Eins og fram kemur á vefsíðu Sjúkratrygginga er mismunandi hvað einstaklingar þurfa að greiða mikið á árinu, eftir aldri og stöðu, áður en afsláttarkortið er gefið út. Um leið og einstaklingar hafa greitt upphæðirnar hér fyrir neðan eiga þeir rétt á afslætti:

 Sjúkratryggðir 18-66 ára almennt   32.300 kr.
 Aldraðir 67 til og með 69 ára sem eru með skertan eða engan ellilífeyri   25.800 kr.
 Aldraðir 70 ára og eldri   8.100 kr.
 Aldraðir 67 til og með 69 ára sem nutu örorkulífeyris fram til 67 ára aldurs 8.100 kr.
 Aldraðir  60 til og með 69 ára sem eru með óskertan ellilífeyri    8.100 kr.
 Öryrkjar    8.100 kr.
 Öll börn yngri en 18 ára í sömu fjölskyldu    9.800 kr.

Yfirleitt þarf fólk ekki að hafa áhyggjur því að leggja fram reikninga og óska eftir afsláttarkorti: það gerist sjálfkrafa, vegna þess að flestar heilbrigðisstofnanir senda Sjúkratryggingum upplýsingar um greiðslur fólks. Þó þurfa skjólstæðingar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem ekki staðgreiða þjónustuna heldur greiða greiðsluseðla í fjármálastofnun eftir á eða greiða innheimtukröfur, að koma kvittunum vegna þessara greiðslna sjálfir til Sjúkratrygginga Íslands.

Á vefsíðu Sjúkratrygginga  kemur fram að senda þarf til Sjúkratrygginga kvittanir vegna greiðslna til nokkurra þjónustuaðila: Benedikts Ó. Sveinssonar kvensjúkdómalæknis, Sjúkrahúss Akureyrar, sjúkrastofnana og heilsugæslustöðva á Vesturlandi, Krabbameinsfélags Íslands og Heyrnar og talmeinastöðvarinnar.