Samningur um innleiðingu hreyfiseðla

Mynd af frétt Samningur um innleiðingu hreyfiseðla
26.05.2014

Samningar voru undirritaðir 23. maí um innleiðingu hreyfiseðla í samræmi við ákvörðun heilbrigðisyfirvalda um að gera hreyfiseðla hluta af almennri heilbrigðisþjónustu. Tilraunaverkefni um notkun hreyfiseðla er lokið og nú tekur við áætlun um endanlega innleiðingu þessa meðferðarforms hjá heilbrigðisstofnunum um allt land

Hvað er hreyfiseðill?

Skjólstæðingar sem hafa sjúkdóma þar sem hreyfing er gagnleg sem meðferð eða hluti af meðferð geta fengið ávísun á hreyfiseðil hjá sínum lækni. Viðkomandi hittir þá hreyfistjóra (sem er menntaður sjúkraþjálfari) í einu upphafsviðtali. Í viðtalinu er lagt faglegt mat á stöðu viðkomandi hvað varðar þol, getu, áhugahvöt og áhugasvið og síðan er lögð upp áætlun um hreyfingu, hvernig, hversu oft, hversu lengi, hversu mikil ákefð o.s.frv. Þegar skjólstæðingurinn hreyfir sig skv. áætluninni fer hann á heimasíðuna hreyfiseðill.is og merkir við á ákveðinn hátt sem gerir honum kleift að fylgjast með frammistöðu sinni á myndrænan hátt og gerir hreyfistjóranum kleift að fylgjast með henni einnig. Nái skjólstæðingurinn ekki markmiðum hefur hreyfistjórinn samband við hann, hvetur áfram og leitar nýrra leiða ef þörf krefur. Í flestum tilvikum er gert ráð fyrir að þessi meðferð nái yfir 6 mánaða tímabil með möguleika á framlengingu. Læknir viðkomandi fær svo skýrslu frá hreyfistjóranum.

Hvenær á hreyfiseðill við?

Í dag eru til rannsóknir á áhrifum hreyfingar sem meðferð við mörgum sjúkdómum. Algengustu ábendingar fyrir hreyfiseðlum hérlendis hafa verið fullorðinssykursýki, offita, hár blóðþrýstingur, þunglyndi og kvíði og ýmsir stoðkerfissjúkdómar.

Framkvæmd

Sjúkraþjálfun Styrkur ehf. mun annast innleiðingu hreyfiseðlanna samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sem undirritaður var 23. maí. Þá voru jafnframt undirritaðir tveir samningar um notkun hreyfiseðla hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Sambærilegir samningar verða undirritaðir á næstu dögum við Heilsugæslustöðina á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Gert er ráð fyrir að samningar liggi fyrir um notkun hreyfiseðla í öllum heilbrigðisumdæmum landsins fyrir lok júní næstkomandi og að hægt verði að byrja í september. Hjá Embætti landlæknis stendur yfir vinna við gerð faglegra tilmæla um notkun hreyfingar sem meðferðar í heilbrigðiskerfinu.
Verkefnisstjórn á vegum Velferðarráðuneytis, sem í sitja Auður Ólafsdóttir og Héðinn Jónsson sjúkraþjálfarar og Jón Steinar Jónsson læknir, mun hafa yfirumsjón með innleiðingu og framkvæmd og faglegri þróum hreyfiseðla. 

Forsagan

Árið 2006 hófst tilraunaverkefni um hreyfiseðla í Heilsugæslunni Garðabæ sem ekki varð framhald á en þar varð til reynsla sem nýttist svo síðar. Tilraunaverkefnið um notkun hreyfiseðla á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri hefur staðið yfir frá árinu 2011. Hjá HH tóku þátt Heilsugæslunnar Árbæ, Efra Breiðholti, Garðabæ, Glæsibæ og Grafarvogi. Innan HH hefur Jón Steinar Jónsson læknir Heilsugæslunni Garðabæ og lektor við læknadeild HÍ verið leiðandi varðandi hreyfiseðlaverkefnið.
Alls var 360 hreyfiseðlum ávísað á 12 mánaða tímabili, frá maí 2013 til maí 2014. Verkefnið hefur gefist vel og eftir því sem skipulag og utanumhald hefur þróast hefur árangurinn batnað og meðferðarheldni aukist. Fyrstu fjóra mánuði ársins 2013 var meðferðarheldnin um 57% en fyrstu fjóra mánuði þessa árs var hún um 78% sem er mjög góður árangur.
Innleiðing hreyfiseðla á Íslandi byggist á sænskri fyrirmynd en þetta meðferðarform hefur náð mikilli útbreiðslu þar og víðar um lönd á undanförnum árum og þykir árangursrík. Áætlun um innleiðinguna hér felur meðal annars í sér áætlun um ráðningu hreyfistjóra, staðsetningu þeirra í heilbrigðisumdæmum og fjölgun stöðugilda eftir því sem fram líða stundir.

Framtíð hreyfiseðils

Nú er verið að innleiða nýja meðferð í íslensku heilbrigðiskerfi sem er ódýr, með afar fáar aukaverkanir og þar sem skjólstæðingarnir geta sjálfir lagt mikilvæg lóð á vogarskálina til að bæta heilsu sína og meðhöndla þá sjúkdóma sem þeir glíma við. Til þess að hreyfiseðill nái fótfestu er mikilvægt að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk og skjólstæðingar þeirra nýti þetta meðferðarúrræði vel.