Rafræn heimilistannlæknaskrá og tannsjúkdómaskrá

Mynd af frétt Rafræn heimilistannlæknaskrá og tannsjúkdómaskrá
24.03.2014

Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis,  fékk á dögunum viðurkenningu velferðarráðuneytis fyrir gæðaþróunarverkefnið Rafræn heimilistannlæknaskrá og tannsjúkdómaskrá. Hólmfríður er einnig verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis en verkefninu er stýrt þaðan. 

Gæðaþróunarverkefnið  felur í sér  að safna og vinna upplýsingar um tannheilbrigðisþjónustu og tannheilsu með rafrænni vöktun á heimtum barna til heimilistannlækna (áfangi I) og söfnun rauntímaupplýsinga um tannheilsu barna (áfangi II).  Stefnt er að því að koma á miðlægum landsgrunni eða skrá um heimilistannlækna og tannsjúkdóma þar sem Heklan veður burðarlag fyrir rafrænar gagnasendingar milli Embættis landlæknis, Sjúkratrygginga, Heilsugæslunnar,  heimilistannlækna og sjúklinga er varða t.d. nafn heimilistannlæknis;  komur, greiningu  og  meðferð. 

Innan Heilsugæslunnar vinnur deild rafrænnar þjónustu undir stjórn Árna Yngva Hermannssonar að nánari útfærslu varðandi virkni og tengingar við Sögu og Ískrá með það að markmiði að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki yfirsýn og eftirfylgni með tannheilbrigðisþjónustu barna.