Rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins innan fjárheimilda 2012

Mynd af frétt Rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins innan fjárheimilda 2012
05.07.2013

Samkvæmt ársreikningi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem Ríkisendurskoðun hefur staðfest, varð 10,6 milljóna kr. afgangur af rekstri stofnunarinnar árið 2012. Jafngilti það um 0,2% af veltu stofnunarinnar á árinu.

Heildartekjur HH á árinu 2012 urðu 5.106 milljónir kr. Þar af námu fjárheimildir úr ríkissjóði 4.535 milljónum kr. og sértekjur urðu 571 milljón kr. Að frátöldum launa- og verðlagsbótum lækkuðu fjárheimildir stofnunarinnar af fjárlögum 2012 um 66 millj. kr. frá árinu áður vegna markmiða ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

Ýmsir útgjaldaliðir HH hækkuðu samt sem áður á milli áranna 2011 og 2012. Þannig hækkuðu launagreiðslur um 6,2%,  rekstrarvörur um 8,4%, aðkeypt þjónusta um 4,7%, húsnæðiskostnaður um 8,4% og ferðir og fundir um 11,6%. Á móti var dregið verulega úr eignakaupum og sértekjur stofnunarinnar jukust um 6%.

Samkvæmt ársreikningnum varð 2012 því þriðja árið í röð sem rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins varð innan fjárheimilda og rekstrarniðurstaða stofnunarinnar jákvæð.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins starfrækir 15 heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, auk fjögurra starfsstöðva með sérhæfðari þjónustu.