Samningur um tannlækningar barna

Mynd af frétt Samningur um tannlækningar barna
28.05.2013

Samningur Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna tók gildi 15. maí. Tannlækningar barna verða greiddar að fullu af SÍ fyrir utan 2.500 kr. árlegt komugjald. Forsenda greiðsluþátttöku SÍ er skráning heimilistannlæknis í Réttindagátt - mínar síður.

Þann 11.apríl sl. var undirritaður samningur á milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands(TFÍ) um tannlæknaþjónustu fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára. Samningurinn tekur til tannlækna sem sinna almennum tannlækningum barna.  Hann öðlaðist gildi 15. maí sl. og gildir til 30. apríl 2019.

Markmið samningsins er að börn yngri en 18 ára fái nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Þá standa vonir til að samningurinn leiði til þess að tannheilsa barna á Íslandi verði eins og best gerist á Norðurlöndum.

Tannlæknaþjónusta barna verður innleidd í áföngum. Í upphafi tekur samningurinn til 15, 16 og 17 ára barna. Þann 1. september nk. munu 3ja, 12, 13 og 14 ára börn bætast við. Í áföngum munu öll börn falla undir samninginn. Þau börn sem samningurinn tekur ekki strax til eiga áfram rétt á greiðsluþátttöku vegna tannlæknakostnaðar í samræmi við endurgreiðslugjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.  

Samningurinn mun aftur á móti taka til allra barna í bráðavanda sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður þótt þau falli ekki undir aldursmörk samningsins á hverjum tíma.
Til þess að börn í bráðavanda öðlast greiðsluþátttöku þarf tilvísun að berast tannlækni  frá heilsugæslu, barnaverndar- eða félagsmálayfirvöldum. Tannlæknir sendir síðan tilvísunina til SÍ ásamt sundurliðaðri umsókn um greiðsluþátttöku ásamt nauðsynlegum fylgigögnum sem sýna bráðavanda viðkomandi barns.

  • Nánari upplýsingar um framkvæmd samningsins og listi yfir þá tannlækna sem eru aðilar að samningnum eru á vef Sjúkratrygginga Íslands.