Metfjöldi sérnámslækna í heimilislækningum

Mynd af frétt Metfjöldi sérnámslækna í heimilislækningum
18.12.2012

Í síðustu viku var  undirritaður nýr samningur milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala um starfsnám fyrir sérnámslækna í heimilislækningum. Föstum stöðum sérnámslækna hefur verið fjölgað og nú stunda 36 læknar sérnám í heimilislækningum á Íslandi og 7 til viðbótar bíða eftir stöðum. Það er metfjöldi en fyrst var boðið upp á slíkt sérnám árið 1995. Sérnámsstöðum hefur að hluta verið fjölgað með því að lausum stöðum sérfræðinga innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur verið breytt í sérnámsstöður í heimilislækningum.

„Samningurinn við Landsspítala háskólasjúkrahús er afar mikilvægur því hann tryggir að fleiri sérnámslæknar en áður komast nú til starfa á deildum spítalans en það er forsenda þess að hægt sé að fjölga læknum í sérnáminu hér hjá okkur.  Fjölgun sérnámslæknanna hefur einnig mikið gildi fyrir mönnun innan heilsugæslunnar á komandi árum,“ segir Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Björn Zoëga, forstjóri Landspítala fagnar samningnum einnig. “Þessi samningur styrkir samstarf og samvinnu milli Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og mun til lengri tíma litið styrkja þjónustu við sjúklinga okkar,“ segir Björn.

Alma Eir Svavarsdóttir, kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum, segir mikla aðsókn í námið gleðiefni fyrir heimilislækningar á Íslandi því ljóst sé að stór hluti starfandi heimilislækna muni fara á eftirlaun á næstu árum en fyrir nokkrum árum var lítil aðsókn í sérnám í heimilislækningum. „Það þarf því að vinna upp þennan skort“ segir Alma. Sérnámslæknarnir hafa lokið hefðbundnu 6 ára læknisfræðinámi, auk kandítatsárs sem er eins árs starfsnám á heilsugæslustöð og á spítala. Sérnámslæknarnir byrja sérnámið á því að taka að minnsta kosti eitt ár í starfsnám á heilsugæslu og eru því dýrmætur starfskraftur þegar þau koma á LSH. Alma segir sérnámsstöðurnar vera til þriggja ára og er námið skipulagt í svokölluðu blokkarkerfi í samvinnu við Landspítala háskólasjúkrahús. Að þeim tíma loknum taka læknarnir það eina og hálfa ár sem eftir er af sérnámi í heimilislækningum erlendis en sumir klára hér heima.  Að mati Ölmu eru nokkrar samverkandi ástæður að baki auknum áhuga á sérnámi í heimilislækningum. Til dæmis hafi heimilislækningar nú verið hluti af kandídatsárinu í um 12 ár. Unglæknar hafi því fengið möguleika á að kynnast spennandi starfsmöguleikum á heilsugæslustöðvum landsins. Þá eru laun heimilislækna sambærileg við laun sérgreinalækna á sjúkrahúsum. “Við bjóðum upp á vel skipulagt og gott nám og það hefur skilað sér í auknum áhuga á náminu,“ segir Alma en á námsárunum starfa sérnámslæknarnir bæði innan heilsugæslunnar og á Landspítala.

Á myndinni sem tekin var við undirritun samningsins eru frá vinstri: Jóhann Ág. Sigurðsson prófessor og yfirmaður þróunarstofu HH, Alma Eir Svavarsdóttir kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum, Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri HH, Björn Zoëga forstjóri LSH, Kristján Erlendsson Framkvæmdastjóri vísinda-, mennta- og nýsköpunarsviðs LSH og Sveinn Magnússon skrifstofustjóri, Velferðarráðuneytinu.