Rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í jafnvægi

Mynd af frétt Rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í jafnvægi
18.04.2012

Rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) var í jafnvægi á síðasta ári. Rekstrarafgangur var 18 milljónir kr. eða um 0,4% af tekjum. Er þetta annað árið í röð sem rekstur stofnunarinnar er jákvæður, eftir hallarekstur nokkur ár þar á undan.

Heildartekjur HH á árinu 2011 voru 4.899 milljónir kr. Þar af námu fjárheimildir úr Ríkissjóði 4.356,3 milljónum kr. og sértekjur 542,2 milljónum kr. Að frádregnum launa- og verðlagsbótum lækkaði ríkisframlagið til stofnunarinnar um 108 milljónir kr. frá árinu áður.

Skuld HH við ríkissjóð vegna halla fyrri ára nam 449,2 milljónum króna í árslok 2011.

Launagreiðslur jukust á milli áranna um 7,8%. Annar kostnaður hækkaði um 4,75%. Athygli vekur að húsaleiga, ræsting og orkukostnaður stóðu nokkurn veginn í stað, þrátt fyrir taxtahækkanir, sem skýrist af minnkun leiguhúsnæðis og sparnaðaraðgerðum stofnunarinnar.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins starfrækir 15 heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, auk fjögurra starfsstöðva með sérhæfðari þjónustu.