Heimahjúkrun í Heilsugæslunni Hamraborg fær styrk til gæðaverkefnis

Mynd af frétt Heimahjúkrun í Heilsugæslunni Hamraborg fær styrk til gæðaverkefnis
01.02.2012

Velferðarráðuneytið hefur veitt heimahjúkrun í Heilsugæslunni Hamraborg styrk að upphæð 200.000 kr. fyrir verkefnið "Aukin gæði í heimahjúkrun með tilkomu félagsliða". Alls bárust 61 umsókn um styrk til gæðaverkefna og ákveðið var að veita átta styrki til mismunandi verkefna.

Forsaga styrkbeiðnarinnar er að í gildi er þjónustusamningur milli Kópavogsbæjar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) sem felur í sér að Kópavogsbær leggur til þrjú stöðugildi félagsliða á móti einu stöðugildi félagsliða frá HH.

Félagsliðar vinna að verkefnum tengdum persónulegri umhirðu og félagslegri virkni skjólstæðinga og eru hluti af teymi heimahjúkrunar í Kópavogi. Félagsliðarnir eru á samningstímanum starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en Heilsugæslan Hamraborg hefur umsjón með skipulagningu verkefna og heldur utan um daglega stjórnun þjónustunnar.

Í dag sinnir heimahjúkrun í Kópavogi 268 einstaklingum og fer í um 170-190 vitjanir á virkum dögum en um helgar og aðra hátíðisdaga í um 90-120 vitjanir. Í síðustu viku var t.d. farið í samtals 1.083 vitjanir.

Verkefni heimahjúkrunar hafa aukist gífurlega á síðustu tveimur árum og má þar nefna að á árinu 2011 jókst hjúkrunarþyngd í dagþjónustu um 8% en um  44% í kvöld og helgarþjónustu. HH fjölgaði stöðugildum sjúkraliða og félagsliða á síðasta ári til að vinna á biðlistum eftir  kvöld og helgarþjónustu. En því miður hefur ekki náðst að eyða þeim biðlistum.

Tilgangur gæðaverkefnisins er skoða hvað það þýðir fyrir þjónustuna að vera með félagsliða í hópi heimahjúkrunar í stað þess að flytja heimahjúkrun til félagsþjónustunnar eins og gert var í Reykjavík.