Sex þúsund tonn af sælgæti á ári

Mynd af frétt Sex þúsund tonn af sælgæti á ári
30.01.2012

Í tannverndarviku, sem Embætti landlæknis stendur fyrir frá 29. janúar til 4. febrúar 2012, er sjónum beint að sælgætisneyslu og ógn hennar við tannheilsu landsmanna.

Sex þúsund tonn af sælgæti á ári

Sælgætisneysla landsmanna er almennt mikil borin saman við önnur Norðurlönd, eða að meðaltali um 400 gr. á hvern íbúa á viku. Ljóst er að stór hluti þjóðarinnar borðar mun meira sælgæti þar sem þetta er meðaltalsmagn og ungabörn og eldra fólk borðar minna sælgæti en aðrir aldursflokkar.

Sú venja hefur skapast hjá mörgum að fá sér sælgæti til að gera sér dagamun. Í flestum matvöruverslunum er sælgætið selt eftir vigt í sjálfsafgreiðslu. Boðið er upp á pokastærðir sem geta tekið mikið magn og um helgar er víða veittur helmingsafsláttur. Þessir þættir geta haft mikil áhrif á það magn sem borðað er. Heildarframboð sælgætis á ári hverju hér á landi er um 6000 tonn.

Tannskemmdir íslenskra barna og unglinga eru of algengar

Tannskemmdir eru algengari hjá börnum og unglingum hérlendis en á öðrum Norðurlöndum. Tólf ára börn eru að meðaltali með rúmlega tvær skemmdar eða viðgerðar fullorðinstennur og fimmtán ára unglingar með rúmlega fjórar að meðaltali. Þessar niðurstöður gefa tilefni til að efla vitund landsmanna um tannheilbrigði og góðar neysluvenjur.

Það er einfalt að viðhalda góðri tannheilsu og komast hjá kostnaðarsömum tannviðgerðum, en tennurnar geta líka auðveldlega skemmst. Hér skipta mestu daglegar venjur, fyrst og fremst tannhirðan – að bursta tennur kvölds og morgna með flúortannkremi og hreinsa daglega milli tanna með tannþræði – og að takmarka neyslu sælgætis og sykraðra gosdrykkja.

Ábyrgð foreldra

Lengi býr að fyrstu gerð. Foreldrar bera ábyrgð á tannheilsu barna sinna. Nýuppkomnar tennur eru sérlega viðkvæmar fyrir sætindum og slæmri tannhirðu. Mikilvægt er að foreldrar hugleiði aðrar leiðir til að gera börnum sínum glaðan dag en að borða sælgæti.

Ábyrgð samfélagsins

Til að draga úr neyslu sælgætis eru stjórnendur íþróttamannvirkja, skóla, kvikmyndahúsa og annarra stofnana hvattir til að leggja áherslu á að hafa hollari vörur í boði. Stjórnendur verslana þar sem sælgæti er til sölu eru hvattir til að endurskoða afsláttarkjör á sælgæti og íhuga einnig afslátt af hollari vörum, s.s. ávöxtum og grænmeti.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Embætti landlæknis vinna náið saman að tannverndarmálum.

Bent er á efni um tannvernd á fræðslusíðunum hér á vefnum og á vef landlæknis eru frekari upplýsingar um tannvernd og neyslu sætinda.