Afgangur af rekstri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2010

Mynd af frétt Afgangur af rekstri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2010
28.03.2011

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) var rekin með 116 milljóna króna rekstrarafgangi á árinu 2010. Í því felst mikill viðsnúningur í rekstrinum, því árið áður varð 165 milljóna halli á rekstri Heilsugæslunnar.

Heildartekjur HH á árinu 2010 námu 4.669 milljónum króna. Þar af námu fjárheimildir úr ríkissjóði 4.141 milljón kr. Að frádregnum launa- og verðlagsbótum lækkaði ríkisframlagið um 89 milljónir frá árinu áður.

Hin jákvæða breyting sem varð á rekstri HH á liðnu ári skýrist fyrst og fremst af lækkun á rekstrarútgjöldum stofnunarinnar. Þannig lækkuðu launaútgjöld stofnunarinnar um 92 milljónir króna milli áranna 2009 og 2010. Önnur gjöld lækkuðu á sama tíma um 170 milljónir. Frá árinu 2007 til 2010 lækkuðu heildarútgjöld HH, þegar frá eru dregin áhrifin af flutningi Miðstöðvar heimahjúkrunar og svonefndra HUH lækna frá stofnuninni, um 14,2%, reiknað á föstu verðlagi.

Af einstökum útgjaldaliðum má nefna að lækningarannsóknir lækkuðu frá 2009 til 2010 um 8%, rekstrarvörur lækkuðu um 6%, akstur um 32%, ferðalög erlendis um 14%, og vextir um 39%. Hins vegar hækkaði orkukostnaður um 6% og húsaleiga um 9%.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins starfrækir 15 heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, og auk þeirra fjórar starfsstöðvar með sérhæfðari þjónustu.