Heilsugæslan Hamraborg 30 ára

Mynd af frétt Heilsugæslan Hamraborg 30 ára
14.07.2010

Heilsugæslustöð Kópavogs var opnuð formlega 23. júlí 1980 í Fannborg 7-9. Tók hún þá við þeirri starfsemi sem hafði verið á Digranesvegi 12 þar sem heimilislæknar og sérfræðingar voru með læknastofur. Einnig var þar ungbarnaeftirlit, mæðraskoðun, heimahjúkrun, húðsjúkdómadeild, sjúkraþjálfun og rannsóknastofa.
 
Öll þessi starfsemi var flutt í Fannborgina. Hugmyndin var að hægt væri að sinna öllum helstu þörfum sjúklinga á einum stað. Húsnæði var þó að mörgu leyti óhentugt, t.d. var stöðin á 2 hæðum og ekki lyfta þannig að stundum þurfti að bera sjúklinga milli hæða.

Stöðin flutti í nýtt og glæsilegt húsnæði í Hamraborg 8 í desember 2005. Málin hafa þróast þannig að þar eru nú heimilislæknar, ungbarna- og mæðravernd, heimahjúkrun fyrir allan Kópavog og sálfræðingur sem sinnir börnum og unglingum. Þá leigir augnlæknir aðstöðu á stöðinni.

Í upphafi voru heilsugæslulæknar 3 en fleiri heimilislæknar höfðu starfsaðstöðu á stöðinni. Heildarfjöldi starfsmanna í byrjun var um tuttugu manns. Enn er einn móttökuritari starfandi sem hefur verið frá upphafi.

Nú eru heilsugæslulæknar á stöðinni 5 og alls um fimmtíu starfsmenn en auk þess eru nú 2 aðrar heilsugæslustöðvar í Kópavogi enda var íbúafjöldi um 13 þúsund árið 1980 en er nú um 30 þúsund.

Myndirnar eru frá 10. starfsári stöðvarinnar 1990. Fyrri myndirnar eru frá starfseminni en neðsta myndin er af nokkrum gestum í 10 ára afmæli stöðvarinnar.