Opnun vefsíðunnar Frjáls.is

Mynd af frétt Opnun vefsíðunnar Frjáls.is
23.03.2010

Miðvikudaginn 24. mars var vefsíðan Frjáls.is formlega opnuð. Vefsíðan er unnin af Lýðheilsustöð í samstarfi við Landlæknisembættið, Landspítalann og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Opnunin fór fram í húsnæði Þróunarstofu heilsugæslunnar. Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins bauð gesti velkomna og stýrði samkomunni. Margrét Björnsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar kynnti verkefnið og hugmyndafræðina sem það byggir á. Síðan sagði Geir Gunnlaugsson, landlæknir nokkur orð og opnaði vefsíðuna í forföllum Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra. Að lokum sýndi Bára Sigurjónsdóttir, ritstjóri Frjáls.is innihald og uppbyggingu síðunnar.

Frjáls.is er vefsíða fyrir fagfólk um leiðir til að aðstoða skjólstæðinga við lífsstílsbreytingar. Vefsíðan auðveldar fagfólki aðgang að þekkingu sem nýtist til að auka faglega færni í því starfi. Áhugahvetjandi samtal er samtalsmeðferð sem hefur gefist vel til að virkja eða efla innri áhugahvöt einstaklinga til breytinga í eigin lífi og er hún kynnt á síðunni.

Efni síðunnar er fyrst og fremst ætlað þeim sem þegar eru starfandi innan heilbrigðiskerfisins en getur einnig nýst öðru fagfólki vel. Vefsíðunni er jafnframt ætlað að styðja við notkun klínískra leiðbeininga um tóbaks- og áfengismeðferð í heilsugæslunni.

Á sérstökum síðum er efni um meðferð við tóbaksfíkn og óhóflegri áfengisneyslu. Þar er ýmislegt ítarefni, gögn og fræðsluefni fyrir skjólstæðinga, sem og sjálfspróf og æfingar sem nýta má til að efla færni í áhugahvetjandi samtali.

Á myndinni eru frá vinstri: Svanhvít, Bára, Geir og Margrét.