Áætlanir um bólusetningu vegna inflúensu A(H1N1)v, svínaflensu, raskast vegna tafa á afhendingu bóluefnis

Mynd af frétt Áætlanir um bólusetningu vegna inflúensu A(H1N1)v, svínaflensu, raskast vegna tafa á afhendingu bóluefnis
30.11.2009

Fyrirsjáanlegt er að gildandi áætlun um bólusetningu almennings gegn inflúensu A(H1N1)v, svínaflensu, raskast verulega vegna þess að minna berst til landsins af bóluefni en gert var ráð fyrir og afhending dregst.

Bóluefni verður væntanlega næst dreift til heilsugæslustöðva 15. desember og síðan 6. janúar 2010. Auglýst verður þegar nær dregur hvenær tímapantanir hefjast að nýju.

Starfsfólk heilsugæslustöðva bólusetur áfram með því bóluefni sem það hefur til umráða, á meðan það endist. Heilsugæslustöðvar annast endurbókanir tíma fyrir bólusetningu og veita upplýsingar. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag á hverri stöð eru á síðum stöðvanna.

Upphaflega var gert ráð fyrir að alls 200.000 skammtar bóluefnis bærust til landsins til áramóta en nú eru horfur á að skammtarnir verði um 170.000. Ástæður tafa við afhendingu bóluefnis eru minni framleiðslugeta framleiðandans en áætlað var, vandamál sem tengjast innpökkun bóluefnis og fleira. Vandinn snertir alla sem bíða eftir bóluefninu, ekki aðeins Íslendinga.

Mjög hefur dregið úr inflúensufaraldrinum hérlendis en landsmenn eru samt eindregið hvattir til þess að láta bólusetja sig þegar því verður við komið.

Frá 23. september til 22. nóvember 2009 voru hátt í 180 manns lagðir inn á sjúkrahús með grun um inflúensu eða staðfesta inflúensu A(H1N1)v 2009, þar af um 130 á Landspítala. Á miðvikudaginn var, 25. nóvember, voru fimm inflúensusjúklingar á Landspítala, þar af einn á gjörgæslu.

Tveir hafa látist hérlendis vegna staðfestrar inflúensunnar A(H1N1)v 2009 eða fylgikvilla í kjölfar sýkingarinnar: 18 ára stúlka lést 19. október og 81 árs karlmaður lést 20. nóvember. Þau voru bæði með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.