Bólusetningar gegn inflúensu A(H1N1)v ganga vel hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Mynd af frétt Bólusetningar gegn inflúensu A(H1N1)v ganga vel hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
06.11.2009

Bólusetningar gegn inflúensu A(H1N1)v ganga vel hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Búið er að bólusetja um 25.000 einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu.

Unnið er eftir tilmælum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að byrja á að bólusetja einstaklinga í skilgreindum forgangshópum. Að mestu er búið að bólusetja starfsfólk í heilbrigðisþjónustu, öryggisþjónustu og lykilhlutverkum af ýmsu tagi í opinberri stjórnsýslu.

Það er mjög langt komið að bólusetja einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og þungaðar konur og útlit fyrir að því verði lokið um miðjan nóvember. Fólk í þessum hópum sem enn á eftir að láta bólusetja sig er hvatt til að gera það sem fyrst.

Almenn bólusetning mun að öllum líkindum geta hafist 23. nóvember. Tímapantanir hefjast 16. nóvember. Mælt er með að allir sem náð hafa 6 mánaða aldri fái bólusetningu.

Heilsugæslustöðvarnar fá úthlutað bóluefni í samræmi við íbúafjölda á þjónustusvæði þeirra og fólki er því bent á að leita til stöðvarinnar í sínu hverfi.

Reikna má með að álag á heilsugæslustöðvarnar verði mikið og er fólk beðið um að sýna biðlund. Minnt er á hjálparsíma Rauða krossins, 1717, þar sem veittar eru almennar upplýsingar um inflúensuna til að minnka álagið á heilsugæsluna og Læknavaktina.

Þrátt fyrir að vísbendingar séu um að inflúensufaraldurinn hafi náð hámarki í bili er áfram mælt með að fólk láti bólusetja sig, líklegt er að fleiri toppar komi síðar. Engar fréttir hafa borist af alvarlegum aukaverkunum bólusetningar.