Heimahjúkrun fyrir Reykjavík og Seltjarnarnes er nú rekin af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

Mynd af frétt Heimahjúkrun fyrir Reykjavík og Seltjarnarnes er nú rekin af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar
16.01.2009

Heimahjúkrun fyrir Reykjavík og Seltjarnarnes er nú rekin af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hefur tekið að sér að reka heimahjúkrun í Reykjavík og sameina hana rekstri félagslegrar heimaþjónustu í Reykjavík í þjónustukerfi sem myndar samhæfða heild gagnvart notanda.

Starfsemin var flutt frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til Velferðarsviðsins 1. janúar 2009 og er um 3 ára tilraunaverkefni að ræða.
Miðstöð heimahjúkrunar er því ekki lengur til en starfsmenn hennar munu sinna sínum verkefnum áfram undir merkjum "Heimaþjónustu Reykjavíkur".

Heimahjúkrun í Mosfellsumdæmi, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði (Sólvangur og Fjörður) er sinnt frá heilsugæslustöðvum í viðkomandi bæjum en Heimaþjónusta Reykjavíkur sinnir næturþjónustu í þessum bæjum og einnig kvöld- og helgarþjónustu í Mosfellsumdæmi.
Lagt verður upp með að skjólstæðingar heimahjúkrunar finni sem minnst fyrir þessum breytingum nema í formi öflugri og heildstæðari þjónustu þegar fram líða stundir.

Berglind Magnúsdóttir öldrunarsálfræðingur hefur verið ráðin yfirmaður Heimaþjónustu Reykjavíkur. Þórdís Magnúsdóttir, fyrrum forstöðumaður Miðstöðvarinnar mun áfram stýra heimahjúkrun undir merkjum Heimaþjónustu Reykjavíkur.

Heimaþjónusta Reykjavíkur er staðsett að Álfabakka 16, 109 Reykjavík. Nýtt símanúmer er 411-9600 og netfangið er: heima@reykjavík.is.