Heilsugæslan Árbæ er flutt að Höfðabakka 9

Mynd af frétt Heilsugæslan Árbæ er flutt að Höfðabakka 9
12.06.2008

Heilsugæslan Árbæ er nú til húsa að Höfðabakka 9 þar til flutt verður í framtíðar húsnæði að Hraunbæ 115 í byrjun desember n.k.

Rannsókn á vegum Vinnueftirlits ríkisins hefur staðið yfir á húsnæði Heilsugæslunnar Árbæ. Beiðni um rannsókn var, eins og fram hefur komið, tilkomin vegna gruns um að samband kynni að vera á milli ákveðinna veikindaeinkenna starfsmanna og ástands húsnæðis stöðvarinnar. Sýni voru send til Svíþjóðar til ræktunar og liggur nú fyrir niðurstaða úr þeirri sýnatöku.

Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir að ekki er orsakasamhengi milli veikindaeinkenna og ástands húsnæðisins, en rannsóknin hefur haft í för með sér að loka hefur þurft tímabundið helmingi húsnæðis heilsugæslunnar. Þrátt fyrir að ekki sé um orsakasamhengi að ræða hefur Vinnueftirlitið bannað notkun vinnurýma þar sem eru rakaskemmdir og gert kröfur um úrbætur á húsnæðinu áður en það verður tekið í notkun aftur.

Það er mat Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að ekki sé raunhæft að gera ráð fyrir áframhaldandi notkun húsnæðis Heilsugæslunnar Árbæ. Óvissa er um umfang nauðsynlegrar viðgerðar og endurbóta á húsnæðinu, sem og um hugsanlegan kostað við þær. Þá er notkun húsnæðisins á meðan framkvæmdir standa yfir óraunhæf, sem þýðir að loka þyrfti stöðinni tímabundið á meðan þær standa yfir.

Með hagsmuni skjólstæðinga og starfsfólks Heilsugæslunnar Árbæ að leiðarljósi hefur verið tekið á leigu húsnæði til bráðabirgða að Höfðabakka 9, Reykjavík. Starfsemi Heilsugæslunnar Árbæ hefst í því húsnæði föstudaginn 13. júní nk. Engin takmörkun verður á starfsemi stöðvarinnar frá þeim tíma. 

Áformað er að Heilsugæslan Árbæ flytji í nýtt húsnæði að hraunbæ 115 þann 1. desember nk.