Sýklalyfjanotkun íslenskra barna, sýklalyfjaónæmi og eyrnabólgurnar

Mynd af frétt Sýklalyfjanotkun íslenskra barna, sýklalyfjaónæmi og eyrnabólgurnar
08.06.2007

Sýklalyfjanotkun íslenskra barna, sýklalyfjaónæmi og eyrnabólgurnar.
Dr med Vilhjálmur Ari Vilhjálmsson, læknir við Heilsugæsluna Fjörður, kynnir á Norræna heimilislæknaþinginu í Reykjavík sem stendur yfir dagana 13-16. júní 2007 árangur gæðaþróunarverkefnis í heilsugæslunni sl. áratug.

• Eyrnabólga er algengasti heilsuvandi íslenskra barna sem leitað er með til læknis og þriðja hvert barn fær hljóðhimnurör á Íslandi.
• Sýklalyfjanotkunin er aðallega vegna miðeyrnabólgu þar sem meðferð með sýklalyfjum er oft óþörf.
• Vitneskja foreldra um skynsamlega notkun sýklalyfja skiptir miklu máli.
• Sýklalyfjanotkunin er meiri en á hinum Norðurlöndunum og fer vaxandi.
• Um þriðjungur barna bera sýklalyfjaónæmar bakteríur í nefi eftir hvern sýklalyfjakúr sem smitast auðveldlega milli barna t.d. leikskólunum.
• Vísbendingar eru um að sýklalyf geti aukið hættu á endurteknum miðeyrnabólgum og þörf  á hljóðhimnurörum síðar.
 
Sýklalyfjaónæmi er alvarlegt og vaxandi heilbrigðisvandamál í heiminum í dag og hefur Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) skilgreint vandann sem eina af mestu heilbrigðisógnum framtíðar. Vandinn fellst í því að sýklalyfin hætti að virka á alvarlegar sýkingar. Á Íslandi þurfa börn orðið að leggjast inn á sjúkrahús til sértækar sýklalyfjameðferðar í æð þar sem venjuleg sýklalyf virka ekki alltaf til að ráða niðurlögum sýkinga. Sýklalyfjaónæmi hefur verið mest í þeim löndum sem nota mest af sýklalyfjum. Bent hefur verið á að oftast þarf ekki að meðhöndla vægar bráðamiðeyrnabólgur með sýklalyfjum. Frekar er mælt með að fylgja málum eftir og endurmeta þörf á sýklalyfjameðferð síðar ef þörf krefur.

Rannsóknirnar sem gerðar voru hér á landi á árunum 1993-2003 í þremur áföngum á vegum heimilislæknisfræði HÍ í samvinnu við Sýklafræðideild LSH sýndu fram á sterk tengsl sýklalyfjanotkunar barna og útbreiðslu sýklalyfjaónæmra pneumókokka. Rannsóknaniðurstöður sýndu að á stöðum þar sem vilji læknanna er fyrir hendi og skilningur foreldra á vandamálinu er góður var hægt að draga úr sýklalyfjnokun barna um allt að 2/3, jafnframt sem þörf á hljóðhimnurörum hjá börnum minnkaði. Eins hvernig mikil sýklalyfjanotkun á öðrum stöðum getur hugsanlega leitt til tíðari miðeyrnabólgusýkinga meðal barna og þörf á hljóðhimnurörum síðar.

Sýklalyfjanotkunin hefur samt aukist hér á landi um 16% að meðaltali á hvert mannsbarn á aðeins tveggja ára tímabili sem síðustu sölutölur ná yfir frá því rannsókninni lauk, á sama tíma og verulega hefur dregið úr sýklalyfjanotkun í flestum öðrum löndum. Tímaskortur foreldra, skortur á fræðslu og mikið vinnuálag eru líklegustu skýringarnar á tíðari sýklalyfjaávísunum hér á landi. Foreldrar þurfa einnig að fá betri aðgang að nauðsynlegri læknishjálp fyrir börnin í heilsugæslunni sem getur boðið upp á eftirfylgni í stað sýklalyfjaávísunar af minnsta tilefni á skyndivöktum.

Nýjar ísl. leiðbeiningar um meðferð miðeyrnabólgu auk fræðsluefnis fyrir foreldra um eyrnabólgur og skynsamlega notkun sýklalyfja er að finna á heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
 

Sjá nánar um efnið:

http://www.laeknadeild.hi..is/page/rit

/?PageID=30&NewsID=152

/lisalib/getfile.aspx?itemid=1806