Samningur um rannsókn á brjóstagjöf ungbarna

Mynd af frétt Samningur um rannsókn á brjóstagjöf ungbarna
05.02.2007

Föstudaginn 2. febrúar sl. undirrituðu Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Ronald Kleinman, prófessor í barnalækningum við læknadeild Harvard háskólans og yfirmaður á barnadeild Massachusetts General Hospital í Boston í Bandaríkjunum, samning um rannsóknarsamstarf til tveggja ára. Ábyrgðarmaður á framkvæmd rannsóknarinnar hér á landi er Geir Gunnlaugsson, forstöðumaður Miðstöðvar heilsuverndar barna og prófessor í lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna möguleika þess að framkvæma hér á landi stóra rannsókn á áhrifum þess að hafa börn eingöngu á brjósti í fjóra eða sex mánuði. Fylgst verður með vexti og þroska barnanna og orkubúskapur og efnaskipti þeirra verða sérstaklega skoðuð.

Rannsóknin verður framkvæmd á fjórum heilsugæslustöðvum, þ.e. í Hlíðum og Grafarvogi í Reykjavík, Firði í Hafnarfirði og á Akranesi. Heildarfjöldi þátttakenda verður allt að 120 mæður sem eru með barn sitt eingöngu á brjósti við 4 mánaða aldur. Mæður sem samþykkja þátttöku í rannsókninni og börnum þeirra er fylgt eftir í tvo mánuði eftir að þeim hefur á handahófskenndan hátt verið skipt í tvo hópa hvað varðar ábót við brjóstagjöf við 4 mánaða aldur barnsins eða eingöngu brjóstagjöf til 6 mánaða. Þeim til aðstoðar meðan á rannsókninni stendur verða fimm hjúkrunarfræðingar sem eru með sérþekkingu sem brjóstagjafaráðgjafar.

Auk ofangreindra aðila koma að rannsókninni hér á landi Inga Þórsdóttir prófessor og samstarfsmenn á Rannsóknarstofu í næringarfræði á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Breskir samstarfsmenn eru Mary Fewtrell barnalæknir, Jonathan Wells vísindamaður, Jane Morgan næringarfræðingur og Alan Lucas prófessor á MRC Childhood Nutrition Research Centre við Institute of Child Health í Lundúnum. Bandarískir samstarfsmenn í Boston, auk Ronald Kleinman, eru Patricia L. Hibberd prófessor í læknadeild Tufts háskólans og Christopher Duggan barnalæknir á Children´s Hospital og dósent við læknadeild og lýðheilsudeild Harvard háskólans.

Á myndinni hér að neðan eru fremst f.v.: Guðmundur Einarsson og Ronald Kleinman.  Aftari röð f.v.: Patricia L. Hibberd, Geir Gunnlaugsson, Alfons Ramel, Jonathan Wells, Jónas Guðmundsson, Mary Fewtrell, Lúðvík Ólafsson, Jóna Margrét Jónsdóttir og Inga Þórsdóttir.