Heilsugæslan Fjörður var formlega opnuð 6. janúar

Mynd af frétt Heilsugæslan Fjörður var formlega opnuð 6. janúar
10.01.2006

Föstudaginn 6. janúar afhenti heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson húsnæði fyrir Heilsugæsluna Fjörður, í verslunarmiðstöðinni Fjörður, Fjarðargötu 13-15 í miðbæ Hafnarfjarðar.

Á Heilsugæslunni Fjörður verður veitt almenn læknis- og hjúkrunarþjónusta, slysa og bráðaþjónusta og síðdegisvakt verður alla virka daga til kl 18:00. Þar er ennfremur veitt meðgönguvernd, ungbarnavernd, rannsóknarþjónusta, bólusetningar og skólaheilsugæsla og heimahjúkrun verður einnig sinnt frá þessari nýju stöð.

Hér er um nýja heilsugæslustöð að ræða en flestir starfsmanna hennar hafa verið í starfi á Heilsugæslunni Sólvangi. Hún mun þjóna íbúum Álftaness og Hafnarfjarðar eins og Heilsugæslan Sólvangi. Þeir íbúar sem hafa verið skráðir skjólstæðingar þeirra heilsugæslulækna sem flytjast munu fylgja þeim nema þeir kjósi annað. Íbúar með lögheimili á Álftanesi og í Hafnarfirði býðst að skrá sig hjá heilsugæslulæknum stöðvarinnar frá opnun með því að fylla út eyðublað og afhenda í móttöku stöðvarinnar.

Alls munu sex heilsugæslulæknar starfa við stöðina, fjórir þegar við opnun, en þrír þeirra flytjast frá Heilsugæslunni Sólvangi og tveir aðrir munu koma til starfa innan nokkurra mánaða.
Yfirlæknir Heilsugæslunnar Fjörður er Guðrún Gunnarsdóttir og hjúkrunarforstjóri er Ingibjörg Ásgeirsdóttir.

Um er að ræða um 1000 ferm húsnæði á þriðju og fjórðu hæð í norðurturni verslunarmiðstöðvarinnar. Inngangur er um rauðu lyftuna. Húsið er byggt árið 1995 en heilsugæslan er að hluta í nýrri viðbyggingu sem tengir 3ju og 4ðu hæð saman með stiga. Húsið er teiknað af Erling G. Pedersen arkitekt, hjá ERUM Arkitektar sem einnig hönnuðu innréttingar. Bílageymslukjallari er undir húsinu.
Húsnæðið er í eigu fasteignafyrirtækisins Fjarðareignir ehf og hefur Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið hefur gert langtímaleigusamning við félagið fyrir hönd heilsugæslunnar.