Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sinna meðferð barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra. Einnig er boðið upp á HAM meðferð fyrir 18 ára og eldri.

Sálfræðingar starfa sem hluti af þverfaglegum teymum og í náinni samvinnu við skóla og félagsþjónustu.

Læknar heilsugæslunnar vísa til sálfræðinganna.

Nánari upplýsingar um þjónustuna má fá á heilsugæslustöðvunum.

Sálfræðiþjónusta fyrir börn og unglinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum veita börnum meðferð vegna hegðunar- og tilfinningavanda og foreldrum þeirra ráðgjöf. Sálfræðiþjónusta stendur verðandi mæðrum og mæðrum með börn á fyrsta aldursári einnig til boða. 

Hvernig fær barnið viðtalstíma hjá sálfræðingi?

 • Þú hefur samband við lækni á heilsugæslustöðinni þinni. Hann sendir tilvísun til sálfræðings. 
 • Sálfræðingurinn fer yfir allar tilvísanir sem til hans berast og hefur samband við forráðamenn barnsins, oftast innan tveggja vikna. 

Hvað gera sálfræðingar á heilsugæslustöð?

 • Meðferð barna og unglinga (0-18 ára) við vægum til miðlungs alvarlegum tilfinninga- og hegðunarvanda. 
  • Almennt miðað við 4-6 viðtöl
 • Ráðgjafaviðtöl við foreldra ef um er að ræða ung börn eða börn með hegðunarvanda.
  • Almennt miðað við 1-3 viðtöl
 • Eftirfylgd að lokinni meðferð á öðrum þjónustustigum
  • Símtöl eða fáein eftirfylgdarviðtöl
 • Meðferð barna er ávallt unnin í samvinnu við foreldra/forráðamenn. 
 • Á nokkrum heilsugæslustöðvum eru hópnámskeið fyrir börn með kvíða eða depurð.
 • Ef ekki næst árangur á þessu þjónustustigi mun sálfræðingurinn, í samvinnu við foreldra og barn, vísa í viðeigandi þjónustu
 • Meðferð við vægum tilfinningavanda verðandi mæðra og mæðra með barn á fyrsta aldursári
  • Almennt er miðað við 4-6 viðtöl. 

Vísað er annað ef um er að ræða:

 • Sérhæfðan eða fjölþættan vanda (t.d. alvarleg árátta-þráhyggja, átröskun, áfallastreita, viðvarandi sjálfsvígstilburðir- eða alvarlegur sjálfskaði, flókinn fjölskylduvandi). 
 • Sálfræðiþjónusta heilsugæslunnar er ekki langtíma úrræði.
 • ADHD greiningar, vitsmunaþroskamat, einhverfugreiningar
 • Alvarlegur geðrænnvandi verðandi mæðra

Samstarf:

Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum eru í samstarfi við lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður stöðvarinnar. 

Aðrir samstarfsaðilar eru félagsþjónusta og sérfræðiþjónusta skóla, Barna- og unglingageðdeild Landspítala, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þroska- og hegðunarstöð og barnavernd. 

 

Hugræn atferlismeðferð 

Meðferðin er ætluð einstaklingum 18 ára og eldri

Í hugrænni atferlismeðferð eða HAM lærir þú aðferðir til að takast á við tilfinningalega vanlíðan á árangursríkan hátt. Rannsóknir sýna að HAM er ein árangursríkasta meðferð sem völ er á í dag t.d. við kvíða og þunglyndi.

Heilsugæslan býður upp á HAM meðferð sem fer fram í hóp einu sinni í viku, tvo tíma í senn, í alls sex skipti. Meðferðin fer fram á heilsugæslustöðvum á dagvinnutíma, mögulega á annarri stöð en í þínu hverfi. 

Meðferðin felur í sér fræðslu, umræður og heimaverkefni. Sálfræðingar stjórna meðferðinni með þátttöku annarra fagstétta eins og  t.d. hjúkrunarfræðinga.

Til þess að komast á námskeiðið þarf að hafa tilvísun frá lækni. Ástæður þess að vísað er í hugræna atferlismeðferð (HAM) á heilsugæslustöð geta verið margvíslegar. Langflestum er þó vísað vegna vanlíðanar, svo sem kvíða, þunglyndis, streitu og álagseinkenna, sem hefur áhrif á daglegt líf og lífsgæði.  

Greitt er komugjald á heilsugæslustöð fyrir hvert skipti semkomið er á námskeiðið.