Mæðravernd stendur öllum verðandi mæðrum/foreldrum til boða og er þeim að kostnaðarlausu. Hver heilsugæslustöð sinnir þeim sem búsettir eru á  þjónustusvæði stöðvarinnar eða hafa heimilislækni á stöðinni.

Mæðravernd er í höndum ljósmæðra og heimilislækna á heilsugæslustöðvum og samráð er haft við fæðingarlækna ef þörf er á. Markmið með mæðravernd heilsugæslunnar er að:

  • að stuðla að heilbrigði móður og barns.
  • að veita faglega umönnun, stuðning og ráðgjöf.
  • að greina áhættuþætti og bregðast við þeim.
  • að veita fræðslu um meðgöngu og fæðingu.

Stuðst er við klíniskar leiðbeiningar um Meðgönguvernd heilbrigðra kvenna í eðlilegri meðgöngu.

Hægt er að fá símaráðgjöf hjá ljósmóður á hverri stöð en einnig má finna fjölbreytt fræðsluefni um meðgöngu og fæðingu á fræðslusíðunni. Einnig bendum við á Fróðleiksmola um mæðravernd.

Fjölmörg námskeið eru í boði á vegum heilsugæslunnar.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag mæðraverndar færðu á þinni heilsugæslustöð. Hér er að finna bækling um fjölda skoðana í meðgönguvernd og hvað ætti að bjóða í hverri skoðun. 

Mæðravernd á Þróunarsviði heilsugæslunnar er bakland fyrir heilsugæslustöðvar varðandi sérfræðiþjónustu um mæðravernd og þar er einnig hægt að fá ráðgjöf hjá ljósmæðrum og læknum í síma: 585-1400.

Hér fyrir neðan má finna upplýsingar um skoðanir í mæðravernd og einnig fræðslupakka þar sem hefur verið safnað saman ýmsum fróðleik fyrir verðandi foreldra. Efninu er raðað í stafrófsröð.

Fyrsta koma í meðgönguverndina er við 8-12 vikur.

Í viðtalinu eru almennar upplýsingar um heilsufar skráðar ásamt fyrri meðgöngu-og fæðingarsögu ef við á. Upplýsingarnar eru færðar í mæðraskrá sem fylgir konunni alla meðgönguna og í fæðinguna.

Boðið er upp á fjölda skimana í meðgönguverndinni. Tilgangur þessara skimana er að athuga hvort eitthvað komi í ljós sem gæti haft áhrif á heilsufar  móður og barns á meðgöngunni. Skimað er meðal annars fyrir blóðleysi, lifrarbólgu B, HIV, rauðum  hundum og sárasótt. Einnig er skimað fyrir rauðkornamótefnum. Boðið er upp á ómskoðanir og aðrar fósturrannsóknir í samstarfi við Fósturgreiningardeild Landsspítalans

Búast má við að fyrsta viðtal geti tekið allt að eina klukkustund. Aðrar komur geta tekið 20-30 mínútur.

Í hverri komu er rætt um almenna líðan og heilsufar. Blóðþrýstingur er mældur og athugað er hvort prótein er í þvagi. Frá 12. viku er hægt að hlusta eftir hjartslætti fóstursins og frá 20.viku er stærð legsins mæld, frá lífbeini að legbotni. Við 36. viku er lega barnsins metin. 
Þarfir verðandi móður/ foreldra eru metnar í hverri skoðun og veitt er fræðsla og ráðgjöf eins og við á hverju sinni. 

Í meðgönguverndinni gefst tækifæri til umræðna og spurninga (t.d. um líðan, mataræði, hreyfingu, skimanir á meðgöngu, fósturrannsóknir, þjónustu sem er í boði á meðgöngu, val á fæðingarstað, fæðinguna, bjargráð í fæðingu, fæðingarorlof, brjóstagjöf, sængurlegu og fleira).    

Fjöldi skoðana á meðgöngu getur verið mismunandi, frumbyrjur koma oftar í skoðun en fjölbyrjur. Nánari upplýsingar um meðgönguvernd heilbrigðra kvenna í eðlilegri meðgöngu má finna í klínískum leiðbeiningum um meðgönguverndina.

Eldri systkini eru velkomin með í meðgönguverndina.

Bæklingar:

Velkomin í meðgönguverndí bæklingnum er meðal annars að finna ráðleggingar um fjölda skoðana í meðgönguvernd.

Hvað er gert í skoðunum í meðgönguverndinni?

Eitt af markmiðum mæðraverndar er að veita fræðslu. Hér er að finna ýmislegt sem tengist tvíburameðgöngu, heilbrigðu líferni, meðgöngukvillum, undirbúningi fyrir fæðingu tvíbura og foreldrahlutverkið, um fæðingu, val á fæðingarstað, slysavarnir og fleira. 

Sumt efnið á við í upphafi meðgöngu, annað þegar líður á og þegar nær dregur fæðingu og sumt á við eftir fæðingu. Gert er ráð fyrir að verðandi tvíburaforeldrar nýti sér þetta efni eftir því sem vilji og þarfir segja til um. Gangi ykkur vel!