Heimaþjónusta Reykjavíkur sér um heimahjúkrun fyrir Reykjavík og Seltjarnarnes.

Heimahjúkrun HH í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi sér um heimahjúkrun í þessum bæjum  en Heimaþjónusta Reykjavíkur sinnir næturþjónustu þar.

Heimahjúkrun í Mosfellsumdæmi er sinnt af Heilsugæslunni Mosfellsumdæmi en Heimaþjónusta Reykjavíkur sér um kvöld- og helgarþjónustu og  næturþjónustu í Mosfellsumdæmi.

Forvarnir:  Fræðsla, forvarnir og heilsuefling til einstaklinga og fjölskyldna þeirra.

Hjúkrun:  Styrkja og viðhalda andlegu og líkamlegu heilbrigði einstaklingsins og draga úr einangrun og einkennum sjúkdóma, eins og kostur er.

Heimahjúkrun sinnir að undangengnu mati:
  • Einstaklingum sem þurfa stuðning, eru t.d. óöruggir og/eða kvíðnir, en að mestu sjálfbjarga. Fræðsla, forvarnir, heilsuefling og eftirlit með almennri líðan eru aðalmarkmið meðferðar. Ástæða beiðni er oft  stuðningur, lyfjaeftirlit og/eða böðun.  
  • Einstaklingum sem þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar. Aðalmarkmið meðferðar eru sárameðferð, sérhæfð lyfjameðferð og annað sem krefst sérhæfingar í hjúkrun. Ástæða beiðni er sérhæfð hjúkrun. 
  • Einstaklingum sem þarfnast víðtækrar hjúkrunar daglega eða oft á dag vegna langvinnra sjúkdóma s.s heilabilunar, geðfötlunar, líkamlegrar skerðingar eða eru deyjandi. Stuðningur við einstaklinginn og aðstandendur ásamt skipulagi og framkvæmd  þeirrar hjúkrunar sem þörf er á hverju sinni eru aðalmarkmið meðferðar. Ástæða beiðni er heildræn hjúkrunarmeðferð  og/ eða líknandi meðferð vegna langvinns sjúkdóms.

Þjónusturammi heimahjúkrunar

1 .gr. - Þagnarskylda
Starfsfólki ber að hafa í heiðri trúnað í samskiptum við notendur og gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Vakin er athygli á ákvæði 18. gr. laga nr. 70/1996 um þagnarskyldu starfsmanna en þar segir:
"Hverjum starfsmanni er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanns eða eðli málsins, þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi."

2. gr. - Umsókn um heimahjúkrun
Beiðni/umsókn um heimahjúkrun verður að berast skriflega frá heilbrigðisstarfsmönnum. Hægt er að nálgast eyðublað á heimasíðu Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og senda má beiðnina í pósti eða faxi. Mikilvægt er að tilgreina tilefni umsóknarinnar, sjúkdóms -greiningu/ar og hjúkrunarvandamál.  Óskað er eftir að hjúkrunar-og/eða læknabréf fylgi umsókn.  Í þeim tilvikum þar sem heimahjúkrun er veitt frá heilsugæslustöð geta gilt aðrar reglur varðandi fyrirkomulag beiðna og er það þá tekið sérstaklega fram á heimasíðu viðkomandi stöðvar.

3. gr. - Mat á þörf fyrir þjónustu
Ákvörðun um að veita heimahjúkrun byggist á kerfisbundinni upplýsingasöfnun hjúkrunarfræðings. Áhersla er lögð á að meta hvort og hvernig heimahjúkrun mun bæta/styðja við heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans.

4. gr. – Upphaf þjónustu
Stefnt er að því að þjónustan hefjist 24-72 klst. eftir að beiðni liggur fyrir. Skrá skal hvenær beiðni berst og heimahjúkrun hefst. Tekið skal fram að ef beiðni berst eftir kl. 12 á föstudegi er ekki hægt að tryggja þjónustu fyrr en næsta virka daga á eftir.

5. gr. – Framkvæmd þjónustu
Ávallt er gerð hjúkrunaráætlun í samráði við einstaklinginn og/eða aðstandendur. Veita skal einstaklingshæfða  hjúkrun. Hjúkrunaráætlun skal liggja fyrir 7 virkum dögum eftir fyrstu vitjun. Endurmat á þjónustu skal fara fram innan tímamarka sem tekin eru fram í áætlun.

6. gr. - Fyrirkomulag þjónustu
Heimahjúkrun er sérhæfð sólarhringsþjónusta og er veitt alla daga.

7. gr. - Samskiptabók
Samskiptabók skal vera hjá hverjum þeim sem þiggur heimahjúkrun. Bókinni er ætlað að hafa upplýsingalegt gildi fyrir skjólstæðinginn, aðstandendur, heilbrigðisstarfsmenn og starfsmenn félagsþjónustu. Þar skal skrá allar breytingar á meðferð og kvitta fyrir komu.

8. gr. - Lyfjagjafir og lyfjaeftirlit
Lyfjatiltekt og heimsending lyfja er á vegum lyfjabúða. Starfsmenn heimahjúkrunar sjá um lyfjaeftirlit og lyfjagjöf hjá þeim sem þess þurfa.

9. gr. - Samskipti  við heilbrigðisstofnanir.
Áhersla skal lögð á samvinnu heimhjúkrunar og annarra heilbrigðisstofnana. Sérstaklega er varðar framvindu heimahjúkrunar, breytingar á meðferð og upplýsingar sem hafa áhrif á líðan.  Lögð er áhersla á nána samvinnu heimahjúkrunar og heimilislækna.

10. gr. - Útskrift
Heimahjúkrun er tímabundin þjónusta sem veitt er meðan þörf er á einstaklingshæfðri hjúkrun. Þegar meðferðarmarkmiðum er náð og heilsufarsleg vandamál hafa verið leyst eða komið í viðunandi horf er gert ráð fyrir að viðkomandi útskrifist. Haft er samband við heimilislækni eða þann fagaðila sem óskaði eftir þjónustunni og gerð grein fyrir niðurstöðu meðferðar og útskriftar. Í þeim tilvikum þar sem heimahjúkrun er veitt frá heilsugæslustöð geta gilt aðrar reglur varðandi fyrirkomulag útskriftar og er það þá tekið sérstaklega fram á heimasíðu viðkomandi stöðvar.

11. gr. - Samfellt eftirlit
Heimahjúkrun vinnur í náinni samvinnu við heilsugæslu eldriborgara og/ eða aðra hjúkrunarþjónustu á heilsugæslustöðvum eins og þurfa þykir.  Haft er samband þegar einstaklingur sem útskrifast úr heimahjúkrun þarf  áframhaldandi stuðning og meðferð.

12. gr. - Sérstakar ráðstafanir vegna þjónustu heimahjúkrunar
Í sumum tilvikum er þörf á sérstökum ráðstöfunum áður en heimahjúkrun hefst.  Hér er t.d. átt við einstaklinga sem þurfa hjálpartæki.  Sömuleiðis getur þurft að gera breytingar á húsnæði eða fyrirkomulagi á heimilinu.

Hjálpartæki og breytingar á húsnæði miða að því að gera einstaklinginn sem mest sjálfbjarga í eigin umhverfi, auðvelda aðstoðarfólki umönnun, draga úr slysahættu og auka þægindi fyrir skjólstæðinginn og fjölskyldu hans.

Þau hjálpartæki sem hér um ræðir eru t.d. sjúkrarúm, upphækkun undir rúm, rúmbotn, lyftari, hjálpartæki til að auðvelda sjúklingi að snúa sér í rúmi, hjólastóll, göngugrind, hækjur, stafir, handföng, baðsæti, baðbretti, sturtukollar, sturtustólar, baðmottur í sturtu og/eða baðkar.

Fyrsta vitjun heimahjúkrunar.
Þegar beiðni um heimahjúkrun berst fer hjúkrunarfræðingur í vitjun og gerir mat á aðstæðum.  Í samvinnu við skjólstæðinginn og aðstandendur er unnið að úrbótum sé þeirra þörf.  Mikilvægt er að allt sé tilbúið og að rétt hjálpartæki séu til staðar þegar skjólstæðingur útskrifast af stofnun.  Það eykur hjá honum öryggiskennd, stuðlar að vellíðan og auðveldar þjónustu við hann. Ef ágreiningur kemur upp er brýnt að leita álits hjá fleirum, eins og öðrum hjúkrunarfræðingum, yfirhjúkrunarfræðingi, sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa.

Vinnuumhverfi heimahjúkrunar, starfsreglur - umhverfi - aðstaða
Í lögum nr. 46 frá 28. maí 1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, merkir vinnustaður það umhverfi innanhúss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna.  Þar skal fyllsta öryggis gætt og góður aðbúnaður tryggður.

Vinna starfsmanna í heimahjúkrun fer fram á einkaheimilum og þarf skjólstæðingurinn eða umbjóðandi hans að fallast á að aðstæður séu þannig að áður nefndum atriðum sér fullnægt.

Heimahjúkrun við sérstakar aðstæður.

Skapist þær aðstæður inni á heimilinu að öryggi skjólstæðingsins eða starfsfólks heimahjúkrunar sé ógnað, t.d. vegna óreglu eða ofbeldis, þarf tafarlaust að gera viðeigandi ráðstafanir.  Það getur þurft að fresta umönnun á meðan leitað er eftir þeirri ráðgjöf og aðstoð sem við á.

Heimahjúkrun býður ekki upp á þjónustu sem felur í sér fasta viðveru eða yfirsetu né sinnir hún heimilisstörfum eða útréttingum fyrir þá sem hún þjónar. Tekið skal fram að heimahjúkrun starfar í náinni samvinnu við félagslegaheimaþjónustu og svæðisskrifstofu til að tryggja fötluðum sem besta þjónustu.

Heimahjúkrun sinnir ekki þeim störfum sem lög um félagsþjónustu nr.40 27. mars 1991 VII. kafli 25.gr. kveður á um, en þar segir:
Sveitarfélag skal sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búa í heimahúsum og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar.

Né heldur þeim störfum sem lög um málefni fatlaðra nr. 59 2. júní 1992, X. kafli liðveisla 25.gr. fjalla um en þar segir m.a.: "Í sérstökum tilvikum skal veita fötluðum einstaklingum frekari liðveislu sem felur í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun".

Litið er á fatlaða sem "heilbrigða einstaklinga" sem ekki þurfa sérhæfða þjónustu heimahjúkrunar fyrr en veikindi eða heilsubrestur steðjar að.
Apríl 2008.  Samantekt unnin af forsvarsmönnum heimahjúkrunar í Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Garðabæ og Hafnarfirði.