Almennar upplýsingar

icon

Hafa sambandEf ekki næst í starfsmann er skilaboðum í símsvara svarað við fyrsta tækifæri
icon

ÞjónustutímiViðtöl eru veitt frá kl. 9.00 til kl. 17.00

Fyrir hverja?

Þjónustan er fyrir verðandi foreldra og foreldra með ung börn sem glíma við alvarlega vanlíðan, geðrænan vanda eða hafa áhyggjur af þroska og/eða tengslamyndun barns. 

Tekið er við tilvísunum frá starfsmönnum heilbrigðis- og velferðarþjónustu

Geðheilsuteymi fjölskylduvernd nær til allra heilbrigðisumdæma.

Um teymið

Geðheilsuteymið er fyrir þá sem þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu en er veitt á heilsugæslustöðvum.

 

Geðheilsuteymið veitir tengslaeflandi innsæismeðferð (e. Parent Infant Psychotherapy) á meðgöngu og eftir fæðingu. 

 

Þjónustan fer að mestu leyti fram í húsnæði geðteymisins og er þverfagleg. Í teyminu starfa hjúkrunarfræðingar, ljósmóðir, félagsráðgjafar, sálfræðingur, og sálgreinir sem allir hafa sérhæft sig í tengslaeflandi meðferð. Þegar við á leggur geðlæknir mat á þörf fyrir lyfjameðferð.

 

Geðheilsuteymi fjölskylduvernd er samstarfsverkefni Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Teymið varð til eftir samruna Miðstöðvar foreldra og barna (MFB) og Foreldrar-meðganga-barn - FMB teymis Landspítala.

Hlutverk og markmið þjónustu Geðheilsuteymis fjölskylduverndar

Markmið þjónustunnar er að draga úr vanlíðan foreldra og fyrirbyggja þroska- og geðheilsuvanda ungra barna og foreldra þeirra með snemmtækum inngripum í barneignaferli. Miðað er við meðgöngu og fyrstu 2 árin -  fyrstu 1000 dagana.

Markmið sem beinast að barninu

 • Að efla örugga tengslamyndun á milli foreldra og barns.
 • Að barnið geti sýnt þarfir sínar og vænst hjálpar foreldranna.
 • Að barnið fái að vera háð foreldrum sínum í samræmi við aldur og þroska og geti með tímanum aðgreint sig frá þeim.
 • Að meta öryggi barns og grípa til viðeigandi ráðstafana sé því talin stafa hætta af umhverfi sínu.

Markmið sem beinast að foreldrunum

 • Að foreldrar geti velt fyrir sér hugarástandi barnsins, eigin hugarástandi og sambandinu þeirra á milli. 
 • Að foreldrar greini eigin líðan og reynslu frá líðan og reynslu barnsins og bregðist við á viðeigandi hátt.
 • Að foreldrar skynji barnið sem aðgreindan einstakling með sjálfstæðan huga og eigin þarfir.
 • Að brjóta upp neikvæð mynstur sem hafa færst á milli kynslóða og draga úr áhrifum þeirra á barnið.
 • Að foreldrar vinni úr reynslu sem er þeim fjötur um fót í foreldrahlutverkinu.
 • Að foreldrar finni til gleði í samskiptum við barnið og njóti samvista við það.

Þjónustan

Verðandi foreldrar og/eða foreldri(ar) og barn eru boðuð saman í matsviðtal:

 • Í matsviðtali er tekin fjölskyldu- og geðheilsusaga og mat lagt á meðferðarþörf.
 • Lagðir eru fyrir matslistar.
 • Starfsemi teymisins kynnt og meðferðaráætlun lögð fram.

Í boði er:

 • Regluleg viðtöl þar sem athyglinni er beint að sögu foreldra, tengslum þeirra á milli og tengslum við barnið.
 • Í völdum tilvikum er boðið upp á heimavitjanir og djúpslökun.
 • Sé talin þörf á lyfjameðferð er vísað á geðlækni innan HH.
 • Mat á þörf fyrir annars konar stuðning eða meðferð.

Samvinna

Áhersla er á samskipti við hinar ýmsu stofnanir, þjónustuaðila og félagasamtök. Unnið er á jafningjagrunni með áherslur þjónustuþega í fyrirrúmi.

Hugmyndafræði

Stuðst er við kenningar sálgreiningar, tengslakenningar, fjölskylduhjúkrun, rannsóknir í taugavísindum og hugræna atferlismeðferð.

Hvernig er sótt um þjónustuna?


 Tekið er við tilvísunum frá fagfólki í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.  

 Heilbrigðisstarfsfólk sendir tilvísun rafrænt í gegnum Sögu. 

 • Þegar sent er innan HH er notað: Beiðni um meðferð
 • Þegar send er rafræn tilvísun milli stofnanna er notað: Tilvísun

 Annað fagfólk, sem hefur ekki aðgang að Sögukerfinu, notar þetta eyðublað. 

 

Fyllið umsóknareyðublað út rafrænt, vistið og sendið í gegnum örugg gagnaskil. Nauðsynlegt er að hafa rafræn skilríki 

Ef ekki er hægt að nota gagnaskil, er eyðublaðið fyllt út rafrænt, prentað út og sent í ábyrgðarpósti til Geðheilsuteymis - Fjölskylduvernd.

 

Allt fagfólk getur sótt um þjónustuna og hver umsókn er metin sérstaklega.

Útskrift

Ef við á, þá er við þjónustulok haft samband við þann aðila sem óskaði eftir þjónustu geðheilsuteymisins og honum gerð grein fyrir stöðu mála hjá viðkomandi einstaklingi/fjölskyldu.


Ef þess er talin þörf er skjólstæðingum vísað í önnur úrræði eftir því sem við á.

Teymisvinna

Geðheilsuteymið byggir á þverfaglegri samvinnu til að veita öflugri þjónustu.

Samsetning fagstétta hverju sinni getur verið mismunandi.

Um teymið

magnifier
StarfsmennStarfsheitiSímiNetfang
Elísabet SigfúsdóttirFélagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur513-6770
Fríður Guðmundsdóttir Sálfræðingur513-6770
Guðrún ÞórisdóttirYfirlæknir513-6770
Helga HinriksdóttirHjúkrunarfræðingur/ljósmóðir513-6770
Margrét GunnarsdóttirSálmeðferðarfræðingur
Sólveig B. SveinbjörnsdóttirFélagsráðgjafi513-6770
Stefanía Birna ArnardóttirTeymisstjóri513-6770
Sæunn KjartansdóttirHjúkrunarfræðingur og sálgreinir513-6770

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?