Á Leiðbeinenda- og ráðgjafanámskeiðinu eru kynntar aðferðir og hugmyndafræði Uppeldi sem virkar – Færni til framtíðar og farið rækilega í skipulag, framkvæmd og innihald samnefndra foreldranámskeiða.

Rík áhersla er lögð á notkun jákvæðra aðferða í uppeldi, á gildi fyrirmynda, markvissa kennslu æskilegrar hegðunar og nauðsyn fyrirhyggju, skipulags og samkvæmni uppalenda.

Á Leiðbeinendanámskeiðinu er einnig fjallað um uppeldi og uppeldisráðgjöf almennt og farið í hagnýtt efni sem miðar að því að auka færni þátttakenda í að veita árangursríka ráðgjöf um uppeldi bæði til foreldra og starfsfólks í uppeldisstörfum. 

Námskeiðið er ætlað fagfólki sem sinnir uppeldisráðgjöf og/eða er í beinum tengslum við börn á ýmsum aldri. Þátttaka á námskeiðinu veitir réttindi til að verða leiðbeinandi á uppeldisnámskeiðum fyrir foreldra og að nota öll þar til gerð námskeiðsgögn. 

Leiðbeinendanámskeiðið fyrir leikskóla er stutt viðbótarnámskeið fyrir þá sem vilja gerast leiðbeinendur á Uppeldi sem virkar – Færni til framtíðar fyrir leikskóla. Innihald þeirra námskeiða byggir á sama grunni og foreldranámskeiðin en efnið hefur verið lagað sérstaklega að þörfum og aðstæðum starfsfólks leikskóla. Þátttakendur þurfa áður að hafa setið Leiðbeinenda- og ráðgjafanámskeiðið. Nánar auglýst síðar.

Hagnýtar upplýsingar

Námskeiðið stendur til boða fagfólki með menntun á uppeldis- eða heilbrigðissviði sem starfar við uppeldi barna og/eða við ráðgjöf og fræðslu um uppeldi til foreldra eða starfsfólks. Hámarksfjöldi þátttakenda á námskeiðið er 12.

Næsta námskeið: 

  • fimmtudag 26. og föstudag 27. nóvember 2020, kl. 9-15 báða dagana.
  • Staður: Þroska- og hegðunarstöð, Þönglabakka 1, 109 Reykjavík
  • Þátttökugjald 27.500 kr. Öll námskeiðs- og kennslugögn auk kaffiveitinga eru innifalin
  • Skráning á námskeiðin

Leiðbeinendur eru Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur og Lone Jensen uppeldisráðgjafi.

Nánari upplýsingar um námskeiðin má fá á Þroska og hegðunarstöð í síma 513-5150 eða tölvupósti.

Hönnun námskeiðanna

Hönnun námskeiðanna Uppeldi sem virkar - Færni til framtíðar var liður í sérstöku átaksverkefni á Miðstöð heilsuverndar barna stutt af Áfengis- og vímuvarnaráði, Fjölskylduráði, Félagsmálaráði Kópavogs, Forvarnanefnd Reykjavíkur, Landlæknisembættinu, Menntamálaráðuneytinu o.fl.

Hluti verkefnisins var þýðing og útgáfa bókarinnar: Uppeldisbókin - Að byggja upp færni til framtíðar sem námskeiðin byggja að miklu leyti á. Aðalhöfundur námskeiðanna er Dr. Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur.