Almennur þjónustutími

Starfstöð er opin virka daga 8:00-16:00. Símatími teymisstjóra er virka daga 8:00-15:00.
Heimahjúkrun er veitt 8:00-23.00 alla daga

Heimahjúkrun HH í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi sér um heimahjúkrun sem veitt er í heimahúsum að undangengnu mati fyrir íbúa í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi. 

Heimaþjónusta Reykjavíkur sinnir íbúum í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Heilsugæslan Mosfellsumdæmi sinnir íbúum á sínu svæði. 

Einstaklingshæfð heimahjúkrun er sérsniðin að þörfum hvers og eins. Hjúkrunarfræðingur Heimahjúkrunar HH metur þörf fyrir hjúkrun í samvinnu við einstaklinginn og aðrar heilbrigðisstéttir. Áhersla er lögð á að meta hvort og hvernig heimahjúkrun mun bæta / styðja við heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans.

Heimahjúkrun er veitt án endurgjalds. Skjólstæðingum ber þó að útvega og greiða fyrir ýmis hjálpartæki og áhöld sem hann þarf á að halda samkvæmt reglum Sjúkratrygginga Íslands. 

Beiðni / umsókn um heimahjúkrun verður að berast skriflega frá starfsfólki í heilbrigðis- eða félagsþjónustu.

Heilsugæslustöðvar og Landspítali nota beiðni / umsókn um heimahjúkrun í Sögu og senda hana rafrænt.

Mikilvægt er að tilgreina tilefni umsóknarinnar, sjúkdómsgreiningar og heilsufarsvanda umsækjanda. 

Óskað er eftir að hjúkrunar- og/eða læknabréf fylgi umsókn. 

Hjúkrunarfræðingur kemur á heimili einstaklingsins og skipuleggur þjónustuna í samvinnu við hann og aðstandendur. 

Markmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingsmiðaða hjúkrun þar sem forvarnir, heilsuvernd, heilsuefling, fagleg þekking og samstarf er höfð að leiðarljósi. Með þessu er einstaklingnum veitt viðeigandi aðstoð til að auka sjálfsbjargargetu sína og gert kleift að dveljast heima við sem eðlilegastar og bestar aðstæður eins lengi og unnt er miðað við heilsufar og félagslegan aðbúnað. 

Þjónusta Heimahjúkrunar HH er margvísleg, svo sem: 

  • Stuðningur, lyfjaeftirlit og / eða böðun:  Einstaklingar sem þurfa stuðning, eru t.d. óöruggir og / eða kvíðnir, en eru að mestu sjálfbjarga. 
  • Sérhæfð hjúkrun: Einstaklingur sem þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar, s.s. sárameðferð, sýklalyfjagjöf og hjartabilunareftirlit.
  • Heildræn hjúkrunarmeðferð  og / eða líknandi meðferð vegna langvinns sjúkdóms: Einstaklingur sem þarfnast víðtækrar hjúkrunar daglega eða oft á dag vegna langvinnra sjúkdóma s.s. heilabilunar, geðfötlunar og líkamlegrar skerðingar. 

Heimahjúkrun veitir ekki fasta viðveru eða yfirsetu á heimilum einstaklinga.

Þjónustan er að jafnaði veitt af sérhæfu fagfólki, þ.e. hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, félags¬liðum og iðjuþjálfa í samvinnu við aðrar fagstéttir, s.s. heimilislækna, starfsfólk sjúkrastofnana. Auk þess er Heimahjúkrun HH í góðri samvinnu við félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Skapist aðstæður inni á heimili að öryggi skjólstæðingsins eða starfsfólks Heimahjúkrunar HH sé ógnað, t.d. vegna óreglu eða ofbeldis, er tafarlaust gerðar viðeigandi ráðstafanir. Fresta getur þurft hjúkrunarþjónustu á meðan leitað er eftir viðeigandi ráðgjöf og aðstoð.

Þegar skjólstæðingur hefur náð líkamlegri og andlegri hæfni til að bjarga sér sjálfur heima, hefst undirbúningur fyrir útskrift. Útskriftin er í samráði við skjólstæðing / aðstandendur. Eftir útskrift getur einstaklingur eða aðstandendur haft samband við heimahjúkrun ef þörf er á.

05.07.2017 08:17

Vel heppnað en krefjandi verkefni

Í júní síðastliðnum var ár liðið frá því að sameinuð Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi tók formlega til starfa. Markmið...

Nánar
21.06.2017 16:21

Heilbrigðisráðherra heimsækir Heilsugæsluna Hamraborg og Heimahjúkun HH

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og fylgdarmenn, heimsóttu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) í dag, 21. júní, og skoðuðu tvær starfstöðvar í Kópavogi, ásamt...

Nánar
30.05.2017 14:20

Hreyfivika í Hafnarfirði

Í tilefni af þátttöku Hafnarfjarðarbæjar í Hreyfivikunni 29. maí - 4. júní fá allir skjólstæðingar Heimahjúkrunar HH sem búa í Hafnarfirði hvatningu til hreyfingar.
Nánar