Göngudeild sóttvarna annast heilbrigðisskoðun innflytjenda og gefur út heilbrigðisvottorð þeim til handa sem sækja um atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi.

Fyrir útgáfu vottorðs þarf að fara fram heilbrigðisskoðun í samræmi við ákvæði sóttvarnarlaga nr. 19/1997 og reglugerðar nr. 131/1999. Heilbrigðisskoðunin, sem vottorðið byggir á, fer þannig fram:

 • Viðtal og skoðun læknis.

 • Í flestum tilfellum eru gerðar eftirfarandi rannsóknir: 
  • Berklapróf hjá þeim sem eru 35 ára og yngri.  
  • Tekin er röntgen mynd af lungum hjá þeim sem eru eldri en 35 ára til að útiloka virka berkla. 

 •  Blóðprufa þar sem leitað er að: 
  •  Eyðni / alnæmi (HIV) 
  •  Lifrarbólgu B og C  
  •  Sárasótt (syphilis)

 • Í einstaka tilfellum metur læknir það svo að ástæða sé til að gera aðrar rannsóknir á grundvelli  sögu sjúklings.

Hjá þeim sem fara í berklapróf er nauðsynlegt að koma tvisvar (aflestur á berklaprófi fer fram 2-3 sólarhringum eftir að próf er gert). Ef berklapróf er jákvætt er tekin lungnamynd til að útiloka virka berkla.

Ef niðurstöður HIV-, lifrarbólgu- og / eða sárasóttarprófa gefa tilefni til er sjúklingur boðaður aftur til viðtals og greidd leið til bestu úrræða á Landspítala háskólasjúkrahúsi.

Ef allar niðurstöður eru eðlilegar skrifar læknir heilbrigðisvottorð.

Gera má ráð fyrir að útgáfa vottorðs taki 1-2 vikur.

Hægt er að panta tíma í skoðun í síma 585-1390 alla virka daga frá kl.8:30-16:00.