Sálfræðinemar í Mastersnámi hjá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík geta fengið starfsþjálfun á starfsstöðvum HH.

Gert er ráð fyrir að sálfræðinemi frá HÍ verji 400 klukkutímum í starfsþjálfun (eina önn) en starfsþjálfun nema frá HR er um 180 stundir  (um tvo heila vinnudaga á viku í a.m.k. 10 vikur). Handleiðari nema er sálfræðingur með löggildingu og a.m.k. 5 ára starfsreynslu.

  • Umsjón með námi sálfræðinga hjá HH hafa Liv Anna Gunnell og Steinunn Þyrí Þórarinsdóttir

Neminn fær fræðslu um störf sálfræðinga í heilsugæslu, starfsemi og hlutverk Heilsugæslunnar innan velferðarkerfisins.

Leitast er við að neminn öðlist færni í klínískum vinnubrögðum og fagmennsku, taki þátt í og fylgist með þverfaglegu teymisstarfi í heilsugæslu þar sem við á. Hann fær í þjálfuninni tækifæri til að fylgjast með greiningar-, meðferðarviðtölum sálfræðinga og ráðgjafarviðtölum sálfræðinga við forráðamenn barna. Í framhaldi af því vinnur nemandinn sjálfstætt greiningar- og/eða meðferðarvinnu undir handleiðslu.

Neminn fær þjálfun í notkun þeirra sálfræðilegu prófa sem viðeigandi eru hverju sinni. Leitast verður við að gefa honum tækifæri til að kynnast fjölbreytilegum verkefnum, s.s. hópmeðferð. Hann situr teymisfundi og aðra fagfundi sem sálfræðingar efna til á starfsstöðinni. Neminn fær þjálfun og leiðbeiningar varðandi skráningu gagna í sjúkraskrá.