Slysavarnarfræðsla á meðgöngu fyrir 28. viku

Þörf er á ýmiss konar búnaði strax við fæðingu eða fyrstu dagana þar á eftir. Mikilvægt er að benda verðandi foreldrum á að þeir þurfi að gefa sér tíma til að velja þann búnað hvort heldur þeir ætli að kaupa hann nýjan eða fá notaðan búnað lánaðan.

Nýr búnaður

Búnaður fyrir börn telst vera almenn framleiðsluvara og á hún ekki að vera CE merkt. Hins vegar er öryggi slíkrar vöru metið t.d. út frá því hvort hún hefur verið framleidd í samræmi við samhæfða evrópska staðla sem jafnframt gilda sem íslenskir (t.d. ÍST EN 1400 Snuð). Staðlar eru það viðmið sem framleiðendur og stjórnvöld hafa orðið ásátt um að gildi.
Hér á landi gilda sömu kröfur til búnaðar fyrir börn og gilda í öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta þýðir að búnaður sem framleiddur er t.d. fyrir Bandaríkjamarkað samkvæmt USA stöðlum uppfyllir ekki sjálfkrafa þær kröfur sem gerðar eru hér á landi.
Hvað varðar búnað fyrir börn þá er mikilvægt að tileinka sér strax að lesa leiðbeiningar um notkun og viðhald búnaðarins og að nota hann rétt. Röng notkun eða lélegt viðhald getur orsakað slys.

 

Notaður búnaður

Þegar keyptur er notaður búnaður eða hann fenginn að láni þarf að fara yfir hann áður en notkun hefst. Nauðsynlegt er að kynna sér „sögu“ búnaðarins en varasamt getur verið að kaupa hann óséðan. Ef búnaðurinn hefur verið tekinn í sundur er mikilvægt að kanna hvort leiðbeiningar um samsetningu hans séu til. Ef þær hafa glatast og búnaðurinn er nýlegur er stundum möguleiki á að fá afrit af þeim hjá versluninni. Ef engar leiðbeiningar um samsetningu eru til er ekki mælt með notkun búnaðarins.

Einnig er mikilvægt að leiðbeiningar um rétta notkun og viðhald séu ekki glataðar. Slíkt getur skipt máli sérstaklega ef búnaðurinn hefur þyngdartakmörk. Dæmi: Ekki má nota vögguna eftir að barnið hefur náð 10 kílóum. Ef barnið er orðið of þungt fyrir vögguna getur hún oltið um koll. Viðhald getur líka skipt máli þegar kemur að öryggi búnaðar. Dæmi: Herða þarf skrúfur í grind barnavagns með vissu tímabili. Ef þetta er ekki gert getur grindin undir vagninum gefið sig með slæmum afleiðingum.

Barnabílstóll

Eitt það fyrsta sem verður að hafa tilbúið áður en barnið fæðist er öryggisbúnaður fyrir barnið í bílnum. Ungbarnabílstóllinn (bakvísandi stóll) er framleiddur í tveimur þyngdarflokkum 0-9 kíló og 0-13 kíló. Þar sem mörg börn hér á landi eru stór og þung miðað við aldur getur verið hagstæðara að velja stól sem ætlaður er fyrir 0-13 kíló því þá getur barnið notað hann lengur.

Hvar er bíll foreldranna keyptur?
Ísland er eina landið í Evrópu sem heimilar söluaðilum notaðra bifreiða og einstaklingum innflutning á nýjum og notuðum bílum frá Bandaríkjunum. Um er að ræða bíla  sem hannaðir eru fyrir þarlendan markað (FMVSS viðurkenning). Þeir bandarísku bílar sem keyptir eru hjá umboðunum hér á landi eru hannaðir fyrir Evrópu (ECE R44 viðurkenning).  Það er því mikilvægt áður en foreldrar eru fræddir um val á barnabílstólum að þessar upplýsingar liggi fyrir.  Aldrei má nota öryggisbúnað sem er FMVSS viðurkenndur (keyptan í Bandaríkjunum) í bíl sem keyptur er í umboði hér á landi, og öfugt ef nota á belti bílsins til að festa hann. Ástæðan fyrir því að þetta má ekki er sú að talsverður munur er á milli viðurkenninganna t.d. er bílbelti í evrópskum bíl (ECE R44) ekki staðsett á sama stað og í bandarískum bíl (FMVSS).

Vinsamlegast vísaðu öllum fyrirspurnum varðandi þennan mun á milli landa til Herdísar Storgaard í Forvarnarhúsinu í síma 440-2029/844-2029 eða herdis.storgaard@sjova.is

Val á ungbarnabílstól
Ef fleiri en einn eiga að aka barninu um, t.d. báðir foreldrar eða afi og amma líka, er mikilvægt að athuga áður en búnaðurinn er keyptur að hann passi í alla þá bíla sem aka á með barnið í. Það þarf að máta stólinn í bílinn/bílana áður en að hann er keyptur. Bílar eru ekki með staðlaðar innréttingar og bílbelti eru mismunandi löng í bílum þannig að foreldrar lenda oft í vandræðum þegar nota á búnaðinn í fyrstu skiptin og eru stundum að taka áhættu vegna þess að búnaðurinn er losaralegur. Til að tryggja að öryggisbúnaðurinn sé rétt festur þarf alltaf að fara eftir þeim leiðbeiningum sem með honum fylgja.
Hægt er að prófa hvort stóllinn sé traustur í bílnum með því að fara sjálfur inn í bílinn taka báðum höndum um hann og kippa honum að sér. Þarna er verið að líkja eftir árekstri og ef stóllinn er traustur þá á hann ekki að haggast. Þetta er gert því það passa ekki allar tegundir öryggisbúnaðar í allar tegundir bíla.

Burðarrúm á aldrei að nota í bílum nema ef barnið á við tímabundna eða varanlega fötlun að etja og þá einungis eftir að læknir hefur ráðlagt það.

Notaður öryggisbúnaður fyrir börn í bílum:

 • Það er ekki öruggt að kaupa eða að fá lánaðan notaðan búnað nema af aðila sem foreldrarnir þekkja og treysta og þá einungis ef upprunalegu leiðbeiningarnar fylgja með.
 • Það er ekki öruggt að kaupa öryggisbúnað sem seldur er á netinu eða í verslunum sem eru með endursöluvarning. Hér á landi eru engar kröfur gerðar um endursölu á öryggisbúnaði. Hér er ekki heldur eftirlit með slíku.
 • Þó að öryggisbúnaður hafi lent í árekstri þá sér oft ekki á honum en hann er ónýtur þrátt fyrir það. Þannig að þó að stóllinn líti vel út getur hann verið ónýtur.
 • Það er einnig vandamál með notaðan öryggisbúnað að upprunalegu leiðbeiningarnar um örugga notkun hans eru oft glataðar. Þá er ekki öruggt að nota öryggisbúnaðinn.

Eftirfarandi þarf að benda foreldrum á ef öryggisbúnaður í bíl er fenginn að láni: 

 • Að leiðbeiningarnar sem með honum fylgdu séu ekki glataðar. Lesið þarf þær vel. Ef þær eru glataðar er ekki öruggt að nota búnaðinn. Þeir sem lána búnaðinn telja sig muna hvernig á að festa hann en það getur verið rangt.
 • Að hann hæfi þyngd barnsins.
 • Að hann sé prófaður í bílinn eða bílana sem aka á með barnið í, þannig að það sé öruggt að hann passi í bílinn.
 • Að hann sé með viðurkenningar merkingu, ECE R 44 03/04. Þann búnað má einungis nota í bíla keypta hér á landi. Ef bíllinn er hinsvegar fluttur inn beint frá Bandaríkjunum þarf hann að hafa  viðurkenningar merkinguna FMVSS. Þann búnað má einungis nota í þá bíla.
 • Að hann sé ekki eldri en 5 ára gamall.
 • Að hann hafi ekki lent í árekstri.
 • Að hann sé skoðaður gaumgæfilega. 
       -  Er plastið í kringum beltafestinguna farið að hvítna? 
       -  Er beltið farið að trosna? 
       -  Er spennan hrein og virkar vel?
       -  Eru nokkuð sýnilegar sprungur eða dældir í plastinu?

Öryggispúði í mælaborði bíls er lífshættulegur börnum
Mikilvægt er að foreldrar kanni hvort það sé virkur öryggispúði í mælaborði farþegamegin í bílnum eða bílunum sem aka á barninu í. Ef þar er virkur öryggispúði má aldrei setja barnið í framsæti bílsins þrátt fyrir að það sé í bakvísandi stól. Öryggispúðinn springur út með um 400 kílóa krafti á örskammri stundu og getur hann stórslasað barnið eða deytt það. Barnið þarf því að vera í aftursæti bílsins. Hægt er að kaupa auka spegla til að fylgjast með.

Ungbarnavagga/rúm

Hér á landi tíðkast það að láta nýfædd börn sofa í vöggum fyrstu vikurnar. Oft er um að ræða vöggu sem gengið hefur milli barna í fjölskyldunni, ættlið fyrir ættlið.

Við kaup á nýrri vöggu eða ungbarnarúmi er mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda.

Atriði sem þarf að hafa í huga þegar að vagga eða ungbarnarúm er fengið að láni

Þegar eldri vagga er fengin að láni er mikilvægt að fara vel yfir vögguna eða rúmið. Fara þarf yfir hliðar og skoða hvort þær séu heilar og stöðugar. Ekki á að nota vögguna/rúmið ef hluti þeirra er brotinn, rifinn eða ef eitthvað vantar. Það er mjög mikilvægt að búnaðurinn sé rétt settur saman.

Mikilvægt er að hafa í huga að fléttaðar vöggur eru mun veikbyggðari og óstöðugri en barnarúm, sérstaklega þær sem komnar eru til ára sinna.

Vöggu á ekki að nota nema í stuttan tíma

Sumar vöggur eru hengdar upp í loft þannig að hægt er að róla þeim. Slíkar vöggur geta verið varasamar á heimilum þar sem önnur börn eru.

Ef valin er vagga/rúm á hjólum verða að vera á þeim læsingar. Vagga/rúm á hjólum er mun óstöðugri en vagga/rúm án hjóla.

Vanda þarf valið á dýnu í vögguna/ungbarnarúmið. Hún þarf að passa vel í og ekki á að vera hægt að setja fleiri en tvo fingur milli dýnunnar og hliða vöggunnar/rúmsins. Tempur dýnur og vatnsdýnur eru alls ekki ætlaðar ungum börnum. Þær gefa of mikið eftir svo hætta skapast á að barnið „sökkvi“ ofan í dýnuna og slíkt getur valdið köfnun.

Helstu hættur við notkun á vöggum/barnarúmum:

 • Vaggan er létt og getur því verið óstöðug.
 • Hætta getur skapast á að vagga velti við lítið álag. Vöggur sem eru á hjólum eru óstöðugri sem og vöggur sem hægt er að róla.
 • Nauðsynlegt er að hafa önnur börn ávallt undir eftirliti í návist barns í vöggu og kenna þeim að umgangast vögguna rétt.
 • Þegar barnið sýnir getu til þess að velta sér upp á hliðar vöggunnar skapast aukin hætta á að það geti velt vöggunni. Þá er tímabært að setja barnið í stærra rúm.
 • Börn sem geta togað sig upp, kropið eða setið óstudd eiga alls ekki að sofa í eða nota vöggu.
 • Ef á vöggunni/rúminu er himnasæng þarf að tryggja að barnið nái ekki í hana. Það getur togað hana yfir vitin og þar með skapast hætta á köfnun.
 • Til að hlífa dýnunni við bleytu á ekki að nota plast heldur þar til gerð lök („pissulök“).
 • Ekki á að skilja leikföng eftir í vöggunni/rúminu og ef leikföng eru strengd yfir mega börnin ekki ná til þeirra.

Skiptiborð

Við kaup á nýju skiptiborði er mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda.

Atriði sem þarf að hafa í huga þegar að skiptiborð er fengið að láni:

 • Þegar notað skiptiborð er fengið að láni er mikilvægt að fara vel yfir það og kanna að það sé heilt. Einnig þarf að kanna stöðugleikann.
 • Fara vel yfir allar festingar að þær séu ekki lausar og herða þær upp.
 • Ef svampdýna er á borðinu og plastið utan um hana er slitið er nauðsynlegt  að fá nýja dýnu. Mikil hætta getur skapast þegar að barn nær að klípa hluta af svampinum af og setja í munninn.
 • Ekki má nota skiptiborðið er það er bilað.

Helstu hættur við notkun á skiptiborðum:

 • Helsta hættan við skiptiborð er að barnið getur dottið af borðinu. Það má því aldrei líta af barninu eitt augnablik.
 • Flestir foreldrar vita hvenær barnið fer að snúa sér en hættan á að barnið detti af borðinu er frá fyrsta degi.
 • Börn hafa mikinn kraft í fótum og þarf barnið ekki annað en að spyrna fótum í hlið borðsins til að detta á gólfið. Dæmi eru um slys á barni sem féll af skiptiborði eins vikna gamalt.
 • Ef ól er á skiptiborðinu er mikilvægt að foreldrar noti hana alltaf þegar skipt er á barninu. Þó má aldrei víkja frá barninu á skiptiborðinu.  
 • Þar sem ól er ekki til staðar er mikilvægt að benda foreldrum á að styðja alltaf við barnið.
 • Gætið þess að borðið sé ekki nálægt miðstöðvarofni, krönum, oddhvössum brúnum eða öðru sem barnið getur skaðað sig á.

Barnavagnar

Þegar að barnavagn er valinn er mikilvægt að kaupa vagn sem hentar íslenskum aðstæðum. Það er mikilvægt að hann haldi vatni og veiti barninu gott skjól í vindi og sé hlýr fyrir barnið. Best er að velja vagn sem er með beisli eða lykkju fyrir beisli.

Við kaup á nýjum barnavagni er mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda.

Atriði sem þarf að hafa í huga þegar barnavagn er fenginn að láni

Fara þarf vel yfir að hemlar virki og að vagninn sé stöðugur. Kanna þarf hvort í honum sé beisli eða lykkja fyrir beisli. Fara þarf vel yfir allar festingar og herða skrúfur. Kanna þarf ástand hjóla að þau séu heil og að festingar sem festa þau við grindina séu í lagi.

Helstu hættur við notkun á barnavögnum:

 • Alvarleg slys hafa orðið vegna þess að barn hefur ekki verið í beisli í vagninum og dottið úr honum.
 • Mikilvægt er að setja net yfir vagninn þannig að kettir og flugur komist ekki að barninu. Ekki setja teppi yfir vagnopið.
 • Mikilvægt er að láta börn ekki sofa úti þegar hvasst er í veðri. Vagnar hafa oltið á hliðina.
 • Varhugavert er að leyfa eldri börnum að standa upp á hjólunum til að kíkja ofan í vagninn. Vagnar hafa oltið við það.
 • Mikilvægt er að hafa endurskinsmerki á yfirbreiðslum.

Eldvarnir

Mikilvægt er að ræða um eldvarnir við verðandi foreldra. Í lögum er kveðið á um að reykskynjarar, slökkvitæki og eldvarnateppi eigi að vera á öllum heimilum.

 • Reykskynjarar eiga að vera á öllum heimilum. Æskilegt er að fá ráðleggingar hjá fagmönnum um staðsetningu þeirra. Skipta þarf um rafhlöður í þeim reglulega, ekki sjaldnar en einu sinni á ári.
 • Slökkvitæki og eldvarnateppi eiga að vera til á öllum heimilum. Hægt er að fá ráðleggingar hjá fagmönnum um rétta staðsetningu.
 • Númer Neyðarlínunnar 112 á að vera við öll símtæki á heimilinu.
 • Mikilvægt er að kunna rétt viðbrögð við eldsvoða. Bendið foreldrum á að kynna sér almennar leiðbeiningar um eldvarnir.
 • Setja þarf upp flóttaáætlun. Ekki geyma það þangað til það er orðið of seint.
 • Ganga þarf úr skugga um að ástand rafmagnsmála á heimilinu sé gott og standist lög um rafmagnsöryggi. Bilaðar rafmagnssnúrur og innstungur á að laga sem fyrst. 
 • Eldspýtur og kveikjara á að geyma þar sem börn ná ekki til.
 • Það má aldrei skilja eftir logandi kerti í mannlausum herbergjum.
 • Djúpsteikingarpottar hafa valdið mörgum húsbrunum. Aldrei má líta af slíkum potti á meðan hann er í notkun.
 • Það má aldrei líta af pottum og pönnum meðan eldavél er í gangi.
 • Olíulampar geta verið stórhættulegir ef ekki er farið eftir leiðbeiningum framleiðanda við notkun þeirra.

Gátlisti ljósmóður/hjúkrunarfræðings fyrir fræðslu til verðandi foreldra

Verðandi foreldrar eru mjög uppteknir af því að gera allt rétt og mjög opnir fyrir öllum ráðleggingum. Það er því mikilvægt að ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og læknar, sem sinna fjölskyldunni, nýti sér það og gefi þeim skýrar og nákvæmar leiðbeiningar um öryggi konunnar.

Öruggur búnaður fyrir nýfædd börn
Mikilvægt er að ræða við foreldra um að þeir þurfi að huga vel að öryggi þess búnaðar sem þeir telja sig þurfa við umönnun barnsins.

Slysavarnir á meðgöngu
Farðu yfir helstu atriðin í bæklingnum Veldu öruggan búnað fyrir barnið og bentu þeim á að kynna sér upplýsingarnar vel.

Helstu aðferðir við fræðslu:

 • Bæklingar og rit. Mikilvægt er að afhenda foreldrum fræðsluefnið Veldu öruggan búnað fyrir barnið fyrir 28. viku meðgöngu og ræða um innihald hans.
 • Einstaklingsfræðsla. Þegar fræðsluefni er afhent er mikilvægt að fara yfir innihald þess lið fyrir lið, því það er kannski í eina skiptið sem verðandi foreldrar fara yfir það.
 • Hópfræðsla. Mikilvægt er að ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og læknar fræði foreldra utan heilsugæslunnar t.d. á námskeiðum fyrir verðandi foreldra, á foreldranámskeiðum og „mömmumorgnum“.

Flestir verðandi foreldrar verða varir við það að ættingjar og vinir vilja gefa þeim góð ráð varðandi umönnun barnsins. Þessi ráð hafa mikil áhrif á þá en þeir verða að átta sig á því að þessi ráð eiga ekki endilega við í dag þó þau hafi virkað vel fyrir nokkrum árum. Tímarnir hafa breyst, vitneskjan aukist og í dag er hugað meira að öryggi barna. Þar að auki er til mjög góður öryggisbúnaður fyrir börn sem auðvelt er að koma fyrir og nota.