Börn á aldrinum 3-5 ára. Að læra um öryggi.

Geta barnsins

Börn á þessum aldri eiga sífellt auðveldara með samhæfingu hreyfinga og fínhreyfingar þeirra verða betri. Þau skilja nú betur afleiðingar gjörða sinna. Þau eru líklegri til þess að gleyma öllum ráðleggingum þegar þau eru annars hugar, þreytt, spennt eða æst, en hafa samt sem áður betra minni og eiga auðveldara með að einbeita sér. Þrátt fyrir þetta eiga þau enn erfitt með að skilja hvers vegna nauðsynlegt er að hafa ákveðnar reglur sem tryggja eiga öryggi þeirra.

Á þessum aldri eru börn mikið að reyna hvað þau geta og ögra sjálfum sér. Leikur þeirra einkennist enn af tilraunum og könnunum ásamt hlutverkaleikjum, eins og að vera læknir eða kennari. Þau eru mikið í ímyndunarleikjum og finnst gaman að þykjast vera t.d. dýr, teiknimyndahetjur, pabbi, mamma og fleira. Þau láta líka leikföng og aðra hversdagslega hluti verða að einhverju sem hönnuðurinn, framleiðandinn eða foreldrarnir hefðu aldrei nokkurn tímann dottið í hug eða getað ímyndað sér. Það skiptir máli að vera viðbúin því að börn geta stundum meira en maður heldur.

Ítreka þarf við foreldra í hverri heimsókn að BARN ER ALLTAF Á ÁBYRGÐ FORRÁÐAMANNA SINNA. Lítil börn eiga því aldrei að vera eftirlitslaus.

Algeng slys hjá þessum aldurshópi og gátlisti fyrir slysavarnir.

Fall

Niður stiga
Öryggishlið duga skammt fyrir þennan aldurshóp. Foreldrar verða því að kenna börnunum að fara varlega upp og niður stiga. Stigar ættu ekki að vera leiksvæði barna.

Slysavarnir

 • Kennið barninu að fara upp og niður stiga og brýnið fyrir því að halda sér alltaf í handriðið á meðan.
 • Leyfið barninu ekki að nota stigann sem leiksvæði.
 • Brýnið fyrir barninu að skilja leikföng og aðra hluti ekki eftir í stiganum, slíkt getur aukið hættuna á falli barna og fullorðinna.

Út um glugga
Á þessum aldri hafa börn mikið ímyndunarafl og óraunhæfar væntingar um getu sína. Þau horfa t.d á Superman í sjónvarpinu fljúga út um glugga og trúa því að í réttum búningi geti þau gert hið sama. Til að fyrirbyggja slíkt þarf að setja öryggislæsingar á glugga sem leyfa einungis 9 cm. opnun sem hindrar að barnið geti dottið út um gluggann.

Slysavarnir

 • Setjið öryggislæsingar, sem tryggja að glugginn opnist ekki meira en 9 cm, á alla glugga.
 • Setjið ekki rúm, stóla eða borð undir glugga í barna- og leikherbergjum.
 • Talið við barnið um hætturnar sem fylgja því að leika sér við glugga.

Niður af leiktækjum
Leiktæki eiga að uppfylla íslenska staðla, sem tryggja það t.d. að bil milli rimla sé öruggt og að allar festingar séu réttar. En þó að leiktækið sé öruggt og uppfylli staðla, getur það verið hættulegt ef það er ekki notað rétt. Lítil börn sem falla úr háu leiktæki geta slasast illa. Það er ómögulegt og óæskilegt að fjarlægja allar hættur leiktækja, en með því að tryggja að börnin noti einungis leiktæki sem henta aldri þeirra, stærð og getu, helst með öryggisundirlagi og eftirliti, er hægt að minnka hættuna á meiðslum.

Úr kojum
Þó að hlaðrúm (kojur) flokkist ekki sem leiktæki, eru þau oft notuð sem leiksvæði fyrir börn. Ekki má láta börn yngri en 6 ára sofa í efri koju. Flest alvarleg slys í kojum verða þegar lítil börn eru að leika sér í þeim og detta á höfuðið.
Ekki er æskilegt að láta börn yngri en 6 ára sofa í efri koju. Börn sem eru óróleg í svefni eða vakna á nóttunni til að fara úr rúmi ættu ekki að sofa í koju.

Slysavarnir

 • Verið viss um að leiktækin henti aldri og þroska barnsins.
 • Veljið leikvelli þar sem öryggisundirlag er undir og í kringum leiktæki.
 • Bannið leiki í hlaðrúmum.
 • Sýnið börnum hvernig nota á leiktækin rétt, en gerið ráð fyrir að þau noti þau á annan hátt.

Köfnun

Plastpokar valda mestri hættu á köfnun barna á þessum aldri. Það gerist samt sem betur fer afar sjaldan. Geymið því leikföng ekki í plastpoka né látið börn hafa plastpoka til þess að geyma hluti í. Blöðrur geta verið varasamar fyrir þennan aldur sérstaklega ef þær eru óuppblásnar eða sprungnar því þær geta festst í kokinu.

Slysavarnir

 • Fjarlægið plastumbúðir og poka af öllu tagi og geymið þar sem börn ná ekki til.
 • Látið börn ekki hafa óuppblásnar blöðrur og fleygið strax sprungnum blöðrum.

Aðskotahlutur í hálsi
Almennt eru börn sem orðin eru 3ja ára að mestu hætt að stinga öllu í munninn. Hins vegar þekkja foreldrar börnin sín best og ættu því að halda smáhlutum frá börnunum enn um sinn ef þau gera það enn. Meiri hætta er á að börn á þessum aldri kafni vegna fæðu eða sælgætis en slíkt er hægt að koma í veg fyrir með því að venja börnin á að sitja kyrr á meðan þau borða og að vera ávallt hjá þeim á meðan. Fæða sem er hörð og lítil, t.d. sælgæti, hnetur og ísmolar, geta skapað hættu og ætti því að forðast hana.

Slysavarnir

 • Fylgist með barninu þegar það borðar.
 • Brýnið fyrir barninu að sitja kyrrt á meðan það borðar. Leyfið því ekki að hlaupa um með mat í munninum.
 • Gætið að því að smáhlutir séu þar sem barnið nær ekki til, ef það setur enn allt í munninn.
 • Gefið börnum ekki hnetur og annað sem getur auðveldlega staðið í þeim.

Eitranir

Þrátt fyrir að vita betur hvað er ætilegt og hvað ekki, eru börn yngri en 5 ára enn í hættu á að verða fyrir eitrunum. Þau geta t.d. auðveldlega ruglast á lyfjum sem líkjast sælgæti. Geta barnanna til þess að „brjóta sér leið“ og „komast að“ því sem þau ætla sér er meiri. Foreldrar ættu því að finna einn góðan stað undir öll hættuleg efni, s.s. lyf, þar með talin vítamín og getnaðarvarnapillur, áfengi, hreinsiefni og tóbak, helst í herbergi þar sem umgengni er mikil svo minni hætta sé á að börnin séu lengi ein þar.

Athugið að á þessum aldri ná flest börn að opna öryggislæsingar á lyfjaglösum og hreinsiefnaflöskum, svo að það eitt og sér er ekki öruggt fyrir barnið.

Slysavarnir

 • Geymið efni og lyf í læstum hirslum og á stað þar sem börn ná ekki til.
 • Geymið öll efni í upphaflegum umbúðum til að fyrirbyggja misskilning.
 • Geymið ekki lyf í handtöskum eða í náttborðinu.
 • Brýnið fyrir börnunum að borða ekki ber eða annað sem þau finna utanhúss nema eftir að hafa sýnt fullorðnum einstaklingi það.
 • Eitrunarmiðstöðin er opin allan sólarhringinn, sími 543-2222.
 • Hafið númer Neyðarlínunnar 112 við öll símtæki á heimilinu.

Hengingar

Enn er smávægileg hætta á að börn á þessum aldri hengist vegna fatnaðar, aðallega þegar þau festast í einhverju, t.d. leiktækjum eða grindverki. Einnig getur hætta stafað af þvottasnúrum, sérstaklega snúningssnúrum, gardínusnúrum og öðrum snúrum og böndum.

Víða í Evrópu hafa verið settar reglur sem minnka hættu á slysum vegna barnafatnaðar. Ekki eru slíkar reglur í gildi hér á landi, en einhverjir framleiðendur barnafatnaðar hérlendis hafi tekið mið af þeim reglum sem eru í gildi í Evrópu. Mikilvægt er að upplýsa almenning um mögulegar hættur, því ekki er óalgengt að börn noti heimasaumuð og prjónuð föt. Hætta á hengingum er aðallega vegna reima í hettum og borða í hálsmálum.

Slysavarnir

 • Fylgist vel með barninu í klifurleikjum. Gætið að því að hálsmál, hettur eða reimar festist ekki í leiktækjum.
 • Gætið að því að barnið leiki sér ekki með snúrur, bönd og hangandi lykkjur.
 • Verið viss um að föt barnsins þrengi ekki að hálsi þess.
 • Fjarlægið reimar og bönd úr fatnaði.
 • Stórar hettur, flaksandi treflar og hálsklútar geta valdið hengingum.
 • Fylgist með að börn leiki sér ekki í þvottasnúrum.

Brunaslys

Börn á þessum aldri finnst gaman að hjálpa fullorðnum og að herma eftir þeim. Það getur orðið hættulegt t.d. þegar að því kemur að halda á heitum mat eða vökva, nota bakaraofninn, kveikjara o.s.frv. Flest börn skilja nú hugtökin „heitt, ekki koma við“, en það vill gleymast auðveldlega. Foreldrar og aðrir sem gæta barnanna verða að fara eftir eigin dómgreind og meta hvað þeir telja að barnið geti gert, en almennt séð er öruggast að láta börn undir fimm ára aldri ekki meðhöndla heita hluti eða vökva.

Vegna aukins fínhreyfiþroska geta börn á þessum aldri skrúfað frá krönum og snúið tökkum á bakaraofni og eldavél. Foreldrar verða að vera meðvitaðir um þetta og gera viðeigandi ráðstafanir vegna þess.

Slysavarnir

 • Athugið alltaf að hitastig baðvatnsins sé hæfilegt áður en barnið fer í bað (=37°C).
 • Hitastýrð blöndunartæki eru æskilegasti kosturinn.
 • Geymið straujárn þar sem barnið nær ekki til og forðist að strauja með barnið nálægt.
 • Notið snúrustytti á þung og heit rafmagnstæki.
 • Notið aftari hellurnar á eldavélinni, ef hægt er, og snúið handföngum á pottum inn á við.
 • Geymið kveikjara og eldspýtur þar sem börn ná ekki til.
 • Drekkið aldrei heita drykki með barn í fanginu.
 • Notið sólarvörn sérstaklega ætlaða börnum. Setjið barnið í léttan fatnað sem hylur mikinn hluta líkamans. Setjið hatt á barnið sem skyggir á andlit þess og háls.

Drukknun

Á Ísland er mikið um vatn í umhverfi barna. Má nefna sjó, vötn, ár, mýrlendi, sundlaugar, setlaugar og tjarnir. Setlaugar og tjarnir í görðum, oft hjá nágrönnum, vinum og ættingjum, eiga einmitt sök á nokkrum drukknunum og nærdrukknunum barna hér á landi.

Þó að hætta á drukknun í baði eða í litlu vatni sé minni en hjá yngri börnum, þá eru börn á þessum aldri enn í hættu nálægt vatni. Þau eru ef til vill öruggari sjálf í vatni, en hætturnar eru enn til staðar. Tjarnir í görðum og setlaugar eru enn börnum hættulegar, eins og allir leikir nálægt vatni s.s. lækjum og skurðum, jafnvel þrátt fyrir eftirlit fullorðins einstaklings. Um 4ra ára aldur er í raun í lagi að fara að venja þau á að vera ein í baði í stutta stund, svo framalega sem barnið getur ekki lokað og læst hurðinni sjálft og að fullorðinn einstaklingur sé í kallfæri. 

Slysavarnir

 • Fylgist vel með börnum þar sem þau eru í vaðlaugum eða við leik nálægt vatni.
 • Girðið af setlaugar og tjarnir.
 • Læst öryggislok á alltaf að vera á setlaugum þegar þær eru ekki í notkun
 • Öruggasti staðurinn til þess að synda eru almennings sundlaugar.
 • Treystið ekki eingöngu á sundkennslubúnað, s.s. armakúta eða sundjakka.

Skurðir og mar

Nú er hægt að fara að kenna barninu hvernig á að nota einstaka hnífa og skæri á öruggan hátt. Þannig er hægt að leyfa þeim að nota smjörhnífa, sem ekki eru oddbeittir og að nota barnaskæri þegar þau föndra. Fínhreyfingar þeirra hafa þroskast mikið og segja má að með því að kenna þeim snemma að nota hnífa og skæri rétt er verið að ýta undir góða þjálfun. Alla beitta hluti, líka rakvélar og naglaþjalir, ætti enn að geyma þar sem börn ná ekki til. Plasthnífar geta líka verið ansi beittir, ef þeir brotna. Börn hafa einnig hlotið alvarleg sár á fingrum eftir að hafa skorið sig á gosdósum.

Allt gler sem er í hæð barna ætti að vera öryggisgler eða í það minnsta vera með öryggisfilmu, en ærslafullir leikir barna geta endað með því að börn detti á hurðir og glugga.

Slysavarnir

 • Geymið beitta hnífa, skæri og rakhnífa þar sem barnið nær ekki til.
 • Kennið barninu að nota smjörhnífa og þar til gerð barnaskæri.
 • Setjið öryggisgler eða öryggisfilmu á gler í hurðum, borðum og fleiru sem er í hæð barnsins.

Þegar farið er út með barnið

Gangandi
Börn á þessum aldri ættu ekki að vera á gangi við götur nema í fylgd með fullorðnum. Þau hafa einfaldlega ekki skilning eða reynslu til þess að takast á við umferðina. Foreldrar þurfa að vera góð fyrirmynd og fara yfir umferðarreglurnar með börnunum, en mega alls ekki treysta því að þau skilji þær alveg og muni eftir þeim.

Slysavarnir

 • Börn á þessum aldri eiga ekki að vera ein úti án eftirlits.
 • Leiðið barnið við umferðargötur.
 • Látið barnið ganga sem lengst frá götunni (þ.e. ekki við gangstéttarbrún).
 • Kennið barninu umferðarreglurnar á meðan þið eruð á gangi.
 • Verið góð fyrirmynd.

Á hjóli
Mörg börn byrja á þessum aldri að hjóla á þríhjólum og jafnvel sum á tvíhjóli. Þau ættu aldrei að fá að hjóla við götur t.d. vegna þess að þau kunna ekki að fara yfir þær. Allir hjólreiðamenn, óháð aldri þeirra, ættu að vera með hjólreiðahjálm. Samkvæmt umferðarlögum er börnum yngri en 15 ára skylt að vera með hjólreiðahjálm við hjólreiðar. Foreldrar ættu að vera fyrirmynd barnanna og nota þá líka.

Slysavarnir

 • Allir hjólreiðamenn, óháð aldri þeirra, ættu að vera með hjólreiðahjálm.
 • Leyfið börnum ekki að hjóla við götur.

Eldvarnir

Eldsvoðar á heimilum fólks eru alltof tíðir og oft hefur litlu mátt muna að heimilisfólk hafi komist heilu og höldnu út. Flest dauðaslys í eldsvoðum verða vegna reykeitrunar frekar en brunasára. Smábörn hafa engan möguleika á að komast sjálf út og eru því í meiri hættu en aðrir. Til eru almennar leiðbeiningar um eldvarnir í heimahúsum sem allir ættu að kynna sér. Þessar leiðbeiningar eiga við um alla aldurshópa, börn sem fullorðna.

Slysavarnir

 • Reykskynjarar eiga að vera á öllum heimilum. Best er að fá ráðleggingar hjá fagmönnum um staðsetningu þeirra. Mikilvægt er að skipta um rafhlöður í þeim reglulega, ekki sjaldnar en einu sinni á ári.
 • Slökkvitæki og eldvarnateppi eiga einnig að vera á öllum heimilum. Fáið ráðleggingar hjá fagmönnum um rétta staðsetningu.
 • Hafið númer Neyðarlínunnar 112 við öll símtæki á heimilinu.
 • Mikilvægt er að kunna rétt viðbrögð við eldsvoða. Kynnið ykkur almennar leiðbeiningar um eldvarnir.
 • Setjið upp flóttaáætlun. Ekki geyma það þangað til það er orðið of seint.
 • Kennið barninu hvernig það á að bregðast við ef það verður vart við eld.
 • Gangið úr skugga um að ástand rafmagnsmála á heimilinu sé gott og standist lög um rafmagnsöryggi. Bilaðar rafmagnssnúrur og innstungur ætti að laga strax.
 • Geymið eldspýtur og kveikjara þar sem börn ná ekki til.
 • Skiljið ekki eftir logandi kerti í mannlausum herbergjum.
 • Djúpsteikingarpottar hafa valdið mörgum húsbrunum og eru sérstaklega varasamir.
 • Lítið aldrei af pottum og pönnum meðan eldavél er í gangi.
 • Olíulampar geta verið stórhættulegir ef ekki er farið eftir leiðbeiningum framleiðanda við notkun þeirra.

Gátlisti fyrir slysavarnir

Til foreldra
Það getur verið erfitt fyrir foreldra að muna eftir því að þó að barnið þeirra sé farið að ganga, tala og hegða sér almennt eins og barn, en ekki ung- eða smábarn, þá er það ekki endilega tilbúið fyrir meiri ábyrgð. Á meðan þau læra meira og meira á hverjum degi, þurfa þau enn á eftirliti og ráðleggingum fullorðinna að halda.

Á hinn bóginn, þurfa foreldrar og aðrir sem gæta barna, að átta sig á því að börn á þessum aldri geta byrjað að læra grunn öryggisatriði og hvernig þau nýtast þeim. Það er undir foreldrum komið að meta getu og skilning barnsins. Það er alltaf kostur að kenna börnum að takast á við einfalda hluti eins og að nota hníf til þess að smyrja brauð eða skera ávexti í bita. Eftirlit með börnum er enn nauðsynlegt, en einnig það að leyfa börnunum að gera sjálft hluti sem eru öruggir og viðeigandi.

Það að hrósa barninu fyrir góða hegðun frekar en að skamma það fyrir slæma hegðun er góð regla sem eykur líka sjálfstraust þess og beinir athygli þess að því sem þau gera rétt og vel. Börn á þessum aldri eru áköf í að læra og þóknast þeim sem þau líta upp til, svo það er mikilvægt að vera jákvæður fyrir því sem þau gera og nota tímann vel til þess að fræða þau og leiðbeina eins mikið og mögulegt er.

 • Ofmetið ekki getu barnsins.
 • Kennið barninu að takast á við sumar hættulegar aðstæður.
 • Hrósið barninu fyrir góða hegðun.
 • Eftirlit er enn besta leiðin til þess að fyrirbyggja slys.

Fræðsla foreldra til barnsins 
Þegar börn vaxa upp úr smábarnaskeiði er hæfileiki þeirra til að læra enn mikill. Nú er rétti tíminn til þess að byrja að útskýra fyrir barninu hvers vegna sumir hlutir eru hættulegir, í framhaldi af því að segja „ekki koma við“ eða „ekki fara þarna“. Við þetta getur barninu fundist það vera orðið „fullorðið“ og meiri líkur eru á að það bregðist jákvætt við. Það eru þó enn takmörk á skilningi þeirra og getu, svo haga verður fræðslu til þeirra eftir því og endurtaka hana reglulega.

Með því að kenna barninu almennar öryggisreglur er minni þeirra styrkt, ásamt því að barninu getur fundist það skemmtilegt. Foreldrar verða samt sem áður að gæta sín á því að ofmeta ekki getu barnsins. Á þessum tíma er því hjálp fullorðinna og leiðbeiningar enn mikilvægar og á meðan öðlast barnið sjálfstraust og lærir góðar venjur.

Þegar þau komast út úr „sjálfmiðuðu“ tímabili, fara börnin að skilja að hegðun þeirra getur haft afleiðingar fyrir aðra. Þau eru þó enn of ung til þess að taka ábyrgð á öðrum, en hægt er að kenna þeim að aðrir geti meiðst vegna einhvers sem þau gera, eins og að skilja eftir dót í stiganum eða gefa litlu barni smáhlut.

 • Verið góð fyrirmynd og útskýrið hvað þið eruð að gera.
 • Útskýrið fyrir barninu hvers vegna sumir hlutir eða gjörðir eru hættulegar.
 • Gerið fræðslu um öryggi að skemmtilegri og jákvæðri reynslu.
 • Kennið barninu að hegðun þeirra og gjörðir geti haft áhrif á aðra.

Ítreka þarf við foreldra í hverri heimsókn að  BARN ER ALLTAF Á ÁBYRGÐ FORRÁÐAMANNA SINNA. Lítil börn eiga því aldrei að vera eftirlitslaus.